Friday, October 15, 2010

Hvammstangi - Þórdísarlundur í júní

Héldum af stað norður á Hvammstanga eftir vinnu þann 16. júní. Okkur sýndist upplagt að taka frí á föstudeginum eftir sautjándann.  Við vorum komin um kvöldmatarleytið og settum okkur niður við kirkjugarðinn. Þar fór vel um okkur enda rólegir nágrannar.
Kirkjan í Kirkjuhvammi

Um kvöldið fórum við í kvöldkaffi til Siggu og Ása.
Á sautjánandum fórum við fyrir hádegi að heimsækja Jón Gest. Hann var hress þó hann eigi orðið erfitt með að bera sig um. Andinn er samur við sig. Þegar þessu lauk var farið fram að Laugarbakka að skoða markað sem þar var og fór Sigga með okkur.
Eftir markaðinn var farið út á Nes og stoppað lengi dags á Ásbjarnarstöðum. Þar var plönuð ferð á Snæfellsnes sem ákveðið er að fara 3. júlí n.k. Skruppum aðeins til Stínu fram að Þorgrímsstöðum. Um kvöldið grilluðum við silung og hvannaleggi og að lokum fórum við smá kvöldgöngu og skoðuðum líka kirkjugarðinn.
Morguninn eftir brugðum við okkur í sturtu til Siggu og svo í kaupfélagið að kaupa kost. Ákváðum að kaupa folaldapiparsteik sem leit ljómandi vel út. Skoðuðum svo Selasafnið en það er ljómandi vel uppsett og gaman að koma þar. Aðeins var kíkt inn í Bardúsu úr því við vorum á staðnum! Síðan var skroppið í gróðurhúsið til Lillu Páls og Sigga. Þau voru hress og kát. Lilla var að slá með sláttutraktor. Eða endingu var farið í kaffi og rabbabaratertu til Siggu og Ása.
 
Á selasafninu

Eftir alla þessa dagskrá ókum við austur í Þórdísarlund og komum okkur þar fyrir. Fljótlega komu Imma og Villi og settu sig niður rétt hjá okkur. Um áttaleytið um kvöldið fórum við í heimsókn til Gunnu frænku þar sem ég (EG) tók við hana rúmlega klukkutíma langt viðtal. Kári frændi var þarna líka og er meiningin að taka viðtal við hann síðar. Ég er aðeins að reyna að fræðast um sögu Rútsstaðasystkinanna og lífið þegar þau voru að alast upp.
Anna og Runólfur komu svo um tíuleytið til Gunnu. Það var mikið spjallað og spekúlerað var þetta notaleg stund. Með kvöldinu fór að fjölga í lundunum þegar Sigga og Hjalti og Ólafur og Birna mættu á svæðið.
Á laugardeginum var árlegur vinnudagur Húnvetningafélagsins í Þórdísarlundi. Það er búið að gera aðstöðuna þarna afar myndarlega og svæðið allt hið skemmtilegasta. Verkefni vinnudaga sem þessa eru að lagfæra það sem þarf, skoða girðinguna og grisja í skóginum. Þetta gekk allt saman afar vel undir styrkri stjórn formanns skógræktarnefndar, Ingimundar Benediktssonar.

 Ingimundur ábúðarfullur
Um kvöldið var sameiginlegt grill en síðan var farið í húsin en það var strekkingsvindur og ekki mjög hlýtt. Eftir borðhald úti við drógum við okkur inn í hús og sungum svolítið og spjölluðum.
Við grillið
Á sunnudeginum var allt rólegt fram um hádegi en þá tókum við okkur saman og héldum heim á leið og þangað vorum við komin um miðjan daginn.
Fínn túr sem gekk að öllu leyti ljómandi vel.

No comments:

Post a Comment