Saturday, October 30, 2010

Ferð í Fjótshlíð 27.3.2010. Horft á gosið

Það var aðfararnótt 21. mars, afmælisdags Steinunnar og fermingardags Viktors Gauta, sem gos hófst í Fimmvörluhálsi. Gosið þótt fréttnæmt og hópaðist fólk þarna austur til að berja herlegheitin augum. Þessa daga fyrst eftir gos var ágætisveður og mikil traffík þarna austur, sérstaklega af jeppafólki sem keyrði yfir Mýrdalsjökul og komst með þeim hætti alveg að gosinu.
Við hugsuðum okkur strax að gaman væri að fara og líta á þetta en á gosdaginn fyrsta var Viktor fermdur og veislan var haldin hjá okkur og síðan dróst þetta í nokkra daga.
Það var síðan laugardaginn 27. mars að veðrið var afar bjart og fallegt og þá ákváðum við að láta til skarar skríða og drífa okkur austur. Hringdum í Guðmund og Stínu og reyndust þau hafa hug á að koma með. Þetta skipti engum togum, við brunuðum upp í Mosfellsbæ og sóttum þau hjón og Stefni son þeirra og ókum svo sem leið lá austur í Fljótshlíð. Þar var að sjálfsögðu hellingur af fólki á ferð á allskonar bílum enda allir vegir eins og á sumardegi.
Við ókum inn að Þórólfsfelli og löbbuðum aðeins áleiðis upp í það en snérum svo fljótt við, bæði vegna þess að okkur sýndist að útsýn yrði betri innar í Fljótshlíðinni og svo var ansi hvasst og kalt.
Steinunn
 Við ákváðum því að keyra innar og svo innar og alltaf kom gosið betur og betur í ljós. Þórsmörkin blasti við og skartaði sínu fegursta miðað við árstíma og það má með sanni segja að ekki var hægt að fá bjartara veður.
Horft yfir til Þórsmerkur
Við ókum innar og innar og á einum stað stoppuðum við og gengum upp á smá hæð þar sem vel sást til gossins. Það var nokkuð stíf norðanátt og frekar kalt en hressandi og útsýnið alveg frábært.
Kuldinn bítur kinn
Héldum síðan áfram og alveg inn á Einhyrningsflatir og þar var margt fólk saman komið. Þarna biðum við þar til myrkrið var skollið á og þá var sýnin alveg stórkostleg. Flottara en nokkurt Gamlárskvöld!
Gosið. Vel má greina hraunfossinn fyrir miðri mynd 
Gosið
Þegar við höfðum verið þarna í góða stund og tekið myndir héldum við til baka og umferðin maður minn lífs og liðinn! Það var bíll við bíl allar götur niður á Hvolsvöll en þar var það nú svo magnað að ekkert var ætilegt að fá í sjoppunni. Við brenndum því á Selfoss og gleyptum í okkur pylsur í bensínsjoppunni þar og héldum síðan sem leið lá til Reykjavíkur.
Það var magnað að fara þarna austur og horfa á þetta sjónarspil náttúrunnar.

No comments:

Post a Comment