Nú fer að halla sumri, daginn er tekið að stytta, dimmt er orðið á nóttum en veður góð og berjaspretta í hámarki. Við ákváðum að skella okkur í útilegu þessa ágætu helgi, bæði til að labba kannski eitthvað og svo líka til að gá að berjum. Það er nú svo skemmtilegt að við höfum það sameiginlega áhugamál að tína ber.
Guðmundur smiður hafði samband fyrir helgi og spurði almæltra tíðinda og líka hvort við ætluðum eitthvað að fara og það varð síðan raunin að við ætluðum að hitta þau. Við vorum alla tíð á því að fara ekkert langt og þess vegna var Borgarfjörðurinnn fyrir valinu.
Við lögðum af stað frekar seint á föstudeginum, ýmislegt verið að stússa yfir daginn eins og gengur. Við komum við í Borgarnesi eins og venjulega á norðurleiðinni og keyptum kost og síðan ókum við sem leið lá í Varmaland. Þar voru ekki ýkja margir en þó líklega ættarmót á einni flötinni. Við lögðum hjá rafmagnsstaur á flöt þar sem var einn lítill húsbíll sem bar það skemmtilega nafn Snabbi. Íbúar þessa bíls urðu okkur svo mikið gleðiefni um helgina.
Við vorum ekki lengi að koma okkur fyrir enda orðin þrautreynd í þeim málum og verkaskipting alveg skýr. Höfðum þessar líka fínu fiskibollur í kvöldmatinn. Ekki leið á löngu þar til þau birtust Guðmundur og Stína með Stefni son sinn. Þau eru með fellihýsti sem greiðlega gekk að reisa og það með fortjaldi og öllum pakkanum. Það rigndi svona af og til meðan á þessu stóð en að verki loknu settumst við inn í hjólhýsi og áttum ágæta kvöldstund við öl og hvítvín.
Á tjaldsvæðinu
Um nóttina hellirigndi þannig að töluvert buldi á þakinu en það var allt í lagi því það var nánast logn. Við vorum frekar seint á fótum og eftir morgunverð var ákveðið að fara í smá ferðalag og ókum við inn hjá Hallarmúla og að Veiðilæk þar sem útrásarvíkingurinn Sigurður Einarsson er að byggja sér stórhýsi. Reyndar er ekki vitað hver staðan á byggingarframkvæmdum er núna enda eigandinn eftirlýstur af Interpol. Það verður nú að segjast eins og er að maður var sleginn nokkrum óhug að koma þarna og sjá græðgina blasa við.
Veiðilækur
Þegar hér var komið sögu skein sól í heiði og hitinn var um 18 gráður á Celcius. Frá Veiðilæk ókum við í Jafnaskarð og þar var tekið til við berjatínslu enda bláar brekkur af bláberjumn. Þar bar ekki mikið á hinum illræmda birkifeta sem nú gerir allar brekkur brúnar. Við gáfum okkur góðan tíma í að tína ber og náðum bara í töluvert af fínum berjum. Ókum svo í gegnum skógræktarlandið og inn að bænum Jafnaskarði eða að hliðinu. Þar er allt í eyði eins og víðar en þó sáum við bíl þar á hlaðinu. Það er nú oft þannig að ættingjar og afkomendur nýta gömul hús til sumardvalar.
Hreðavatn
Eftir að heim kom var þetta líka fína grill með öllu tilheyrandi og síðan var setið í hjólhýsinu um kvöldið og spilað á spil. Við spiluðum Kana og líka nýtt spil sem kallast Coulon og er bara nokkuð skemmtilegt. Þau voru með þekkingu á þessu spili og miðluðu henni af hógværð og mikilli skynsemi.
Daginn eftir var sama blíðviðrið og þá var farið upp að Langavatni. Þar voru allar brekkur brúnar eftir birkifetann en samt náðum við nokkru af berjum og til dæmis smávegis af aðalbláberjum. Það var þó nokkur umferð þarna uppeftir í góða verðinu. Guðmundur og Stefnir reyndu að veiða en ekki var bröndu að hafa. Á bakaleiðinni fundum við ágætis aðalbláberjalyng sem við tókum af.
Á leiðinni upp að Langavatni
Þegar heim á tjaldsvæði var komið var dagskráin að mestu tæmd. Við tókum saman og þau Guðmundur og Stína líka og svo fór hver sína leið.
No comments:
Post a Comment