Tuesday, September 14, 2010

Þórisstaðir um Hvítasunnuna

Það er orðinn árlegur viðburður að fara í útilegu um Hvítasunnuna með Ingibjörgu og Vilhjálmi. Fyrsta ferðin sem farin var var vorið sem við fengum hjólhýsið, nefnilega vorið 2005. Þá fórum við í Hellishóla og það mun hafa verið 14. maí 2005 ef mig misminnir ekki.
Hvað um það nú var ákveðið að fara í Þórisstaði í Svínadal. Við lögðum af stað á laugardagsmorgni og komum okkur fyrir. Villi og Imma höfðu mætt á svæðið kvöldið áður og undu hag sínum hið besta.
Á tjaldstæðinu
Eftir smá kaffisopa og meððí var farið í göngutúr upp á hálsinn sem er þarna sunnan- eða austanvert í dalnum. Fórum reyndar ekki alla leið og var kannski mér um að kenna. Leti og bakverkur. Grilluðum um kvöldið og áttum huggulega stund.

Borðhaldið

   Daginn eftir á Hvítasunnudag tókum við á rás og fórum í góðan bíltúr. Byrjuðum á að fara og skoða Saurbæjarkirkju þar sem Hallgrímur sálugi Pétursson þjónaði og orti Passíusálmana. Veðrið var hreint ágætt, sólskin og sæmilega hlýtt en nokkur vindur.

Saurbæjarkirkja



 Villi og Imma


Frá Saurbæ lá leiðin í Borgarnes þar sem við skoðuðum brúðusafn og fengum okkur kaffi og þær matarmestu vöfflur sem ég man eftir. Þær voru góðar!

Úr brúðusafninu
 Eftir Borgarnes fórum við í handverkshúsið við Laxá en þar var áður Sláturfélag Suðurlands. Ekki var þetta nú afskaplega merkilegt að mínu viti. Þarna var þó slatti af konum að selja allan fjandann eins og venja er til og þarna var líka hægt að fá kaffi og með því og ef vel var að gáð mátti finna kaldan í kæli. Veitingar voru samt ekki þegnar þarna. 
Síðan lá leiðin upp í Reykholtsdal og að Deildartungu þar sem er vatnsmesti hver á landinu. Þaðan kemur heita vatnið sem hitar til að mynda Akranes.
Frá Deildartunguhver

Eftir þetta var haldið heim á leið. Þess má geta að við fórum í bifreið þeirra Vilhjálms og Ingibjargar og var það afar notalegt og þægilegt.
Um kvöldið var grill og fínerí í ljómandi vorveðri.
Þá var nú gleði og gaman

Mikinn þorsta sótti að Vilhjálmi við bæjarlækinn í Saurbæ


Annar í Hvítasunnu var bjartur og fagur eins og Hvítasunnudagurinn og við fórum fljótlega eftir morgunmat að taka saman og búa okkur undir heimferð. Dóluðum svo suður á bóginn í kringum hádegið.
Þessi helgarferð var í alla staði afar vel heppnuð og skemmtileg og lofar góðu um ferðasumarið.
Úr Skorradal

No comments:

Post a Comment