Nú skyldi haldið á Snæfellsnesið.
Ferðalangar mættu við aðsetur IÐUNNAR kl. 9:00 og lagt var af stað um hálf níuleytið. Hópurinn samanstóð af 24 manneskjum, starfsmönnum og mökum þeirra. Umsjónarmaður ferðarinnar var Þórey Thorlacius.
Uppi á hól Birgir Hólm tók myndina
Til þess að enginn þyrfti nú að kveljast úr hungri á leiðinni var boðið upp á smurð rúnnstykki og kók eða ávaxtasafa. Því voru gerð góð skil.
Ekið var sem leið liggur vestur á Arnarstapa í frekar þungskýjuðu veðri og gekk reyndar á með skúrum og jafnvel hellidembum á leiðinni.
Frá Arnarstapa
Þegar á Arnarstapann kom stytti alveg upp og gekk hópurinn til Hellna en þangað eru 2,5 km frá Arnarstapa. Ekki var gengið afskaplega hratt og tók göngutúrinn hátt í klukkutíma.
Göngutúrinn
Við Arnarstapa
Þegar að Hellnum kom var farið í litla veitingahúsið við fjöruna og þar beið okkar þessi líka fína fiskisúpa ásamt brauði og tilheyrandi. Súpan var aldeilis fín og vel þegin. Meðan á borðhaldinu stóð afhenti Hildur framkvæmdastjóri hverjum starfsmanni umslag með aðgangskorti að fjórum sýningum í Þjóðleikhúsinu. Aldeilis myndarlegt það.
Hildur Elín
Að súpunni lokinni var haldið af stað á ný og keyrt sem leið lá fyrir Nesið. Það var nú það lágskýjað að ekkert sást til jökulsins. Það hafði staðið til að fara niður á Djúpalónssand en af því varð nú ekki þar sem það fór að hellirigna. Það var magnað að það stytti akkúrat upp þennan klukkutíma sem við vorum á labbinu. Þetta var talið til dæmis um góða tengingu Þóreyjar við almættið.
Það má alveg geta þess að þegar í rútuna var komið á Hellnum var dreift bjór á liðið eins og hver vildi. Þá voru margar feginshendur á lofti.
Ferðin var tíðindalaus þar til komið var til Stykkishólms en þar var farið beint í bruggverksmiðjuna sem framleiðir bjórinn Jökul. Þar var boðið upp á bjór af mörgum gerðum og síðan fræddi eigandinn okkur um fyrirtækið og framleiðsluferilinn. Það var bara nokkuð bjart í honum hljóðið og hann var vongóður varðandi framtíðina.
Bjórkynningin
Að þessari kynningu og bjórdrykkju lokinni var haldið heim í húsið þar sem skyldi gist og það var ekki að sökum að spyrja; bjórinn var borinn í hús í nánast kippum. Eins og áður var þetta vel þegið.
Rúmlega klukkan átta mættum við svo á Narfeyrarstofu í mat. Þessi staður gekk reyndar undir nafninu Nærverustofa! Þarna var borinn fram þessi fíni matur, lambakjöt og svo tiramisu á eftir. Allt þetta var í boði fyrirtækisins. Þegar máltíðinni lauk var farið í partí í einu húsanna og sem fyrr var þar gnægð drykkjarfanga en allir umgengust þau af mikilli hógværð.
Óli Ást og Biggi Hólm spiluðu á gítara undir fjöldasöng og fórst það vel úr hendi.
Um eittleytið var svefninn farinn að sækja á mannskapinn og lauk partíinu skömmu eftir það eftir því sem best er vitað.
Morguninn eftir var lítil dagskrá nema fá sér morgunmat og fara síðan í bæinn. Þangað var komið um hálftvö leytið og eftir það bara beint heim.
Þetta var að öllu leyti hin besta ferð og höfðinglega framkvæmd í alla staði.
Kærar þakkir fyrir mig.
Steinunn tók allar myndirnar nema eina sem merkt er Birgi Hólm.
No comments:
Post a Comment