Svona er febrúar á Kanaríeyjum
Ferðin hófst 10. febrúar 2010 og var flogið í leiguflugi beint til Kanarí. Það gekk allt bara vel og við komumst heilu og höldnu heim á hótel Buenaventura. Þetta er rosastórt hótel með rúmlega 700 herbergjum. Sem dæmi um strærðina má geta þess að frá lyftudyrunum á hæðinni sem við bjuggum á voru 180 metrar að herbergisdyrunum okkar.
Við höfðum hálft fæði sem þýðir að við fengum morgun- og kvöldmat. Okkur var úthlutað að mæta í kvöldmatinn kl. 19:30 og þá var komin löng biðröð. Svo var það bara hnefarétturinn að finna borð. Maturinn var svo sem ágætur en ekkert spennandi og alls ekki til lengdar. Búðingarnir voru ágætir. Það vildi líka þannig til að Anna systir og Runólfur mágur voru á svæðinu, höfðu komið viku fyrr. Þau hafa verið þarna margoft og þekkja allt út og inn. Þau komu fljótlega og fóru með okkur í skoðunarlabb um svæðið. Þarna voru líka hjónin Örn og Lilja sem þau Anna eru mikið með og við fórum aðeins með þeim, m.a. í mini-golf. Það var bara skemmtilegt.
Þann 12. febrúar á laugardegi fórum við til Mogán með rútu. Þetta er lítill bær við ströndina og afar fallegt þar. Við eyddum deginum þarna í að labba og skoða og fara á markað og sigldum svo langleiðina heim.
Einn daginn gengum við eftir ströndinni alveg út að vita. Þar eru flott hótel og dýrara svæði heldur en á Ensku ströndinni. Þetta er rúmlega klukkutímagangur í sandinum og meðal annars gengið fram hjá heilmikilli nektarnýlendu. Þar var nú margt misfagurt sem ekki verður tíundað hér. Ragna og Steini voru með okkur í göngutúrnum.
Kórinn söng við messu í sænsku kirkjunni og var hún alveg troðfull bæði af Íslendingum og útlendingum. Íslendingar eru þarna í haugum á þessum árstíma, sérstaklega fólk í eldri kantinum sem hætt er að vinna. Söngurinn tókst bara ágætlega þó lítið hafi verið æft fyrir þetta sérstaklega. Eftir messuna var smá kaffiboð hjá starfsmönnum kirkjunnar og þar sungum við aðeins meira. Organistinn þeirra tók lagið My Way við góðar undirtektir.
Einn daginn tókum við í að heimsækja Las Palmas. Við fórum bara á umferðarmiðstöðina og tókum rútuna eins og ekkert væri. Við vorum 8 saman, við, Anna og Runólfur, Ragna og Steini og svo Jón Unnar og Ólafía. Þetta gekk allt saman vel. Við vorum ekkert yfir okkur hrifin af þessum bæ. Byrjuðum á að fara í verslanamiðstöð og svo þar á eftir niður í bæ. Það var nú ekkert sérstakt vöruúrval þarna en eitthvað var nú keypt samt eins og venja er.
Þarna verið að fá sér hressingu eftir göngutúrinn út í vitann.
Ekki var mikið gert af því að borða á veitingastöðum þar sem við vorum með kvöldmat á hótelinu. Einu sinni fórum við samt og fengum okkur appelsínuönd á litlum stað í gilinu sem svo er kallað. Það er kínverskt fólk sem rekur þennan stað og öndin var alveg ljómandi góð.
Við ræddum það heilmikið hvort Kanaríeyjar væri staður sem við vildum vera áskrifendur að í einhverjar vikur á hverju ári og niðurstaðan varð sú að við vildum það ekki. Okkur þykir meira spennandi að breyta til og kannski aðrir staðir meira spennandi. Það var nú líka þannig að veðrið var bara virkilega gott fyrstu 3 dagana en svo var rigning og þokuloft svipað og heima nema auðvitað hlýrra. Það getur víst verið happdrætti með veður þarna ekki síður en annarsstaðar.
Hvað sem því líður þá var þetta ágætis ferð og fróðlegt að upplifa Kanaríeyjar í fyrsta sinn.
No comments:
Post a Comment