Ferðin út gekk vel og tók fararstjóri á móti okkur á flugvellinum og við fórum í rútu á hótelið. Þetta reyndist vera hið flottasta hótel og vel staðsett. Allt mjög snyrtilegt og ágætt.
Við fórum strax í bæinn þegar við vorum búin að koma okkur fyrir. Gengum um og skoðuðum hús og verslanir.
Við reyndum að skoða sem mest af borginni en þarna búa um 700 þús. manns, en Sevilla er höfðuðborg Andalúsíu. Borgin er afar gömul og á sér merka sögu allt frá tímum Mára og Rómverja.
Mannlíf er þarna afar líflegt, alltaf fullt af fólki á götunum og í verslunum og byggingar margar afar fallegar.
Iðandi mannlíf á götunum
Það var ljómandi fínt veður alla dagana, hitinn rúmlega 25 gráður en var svo kominn yfir 30 gráður síðustu dagana. Við að vísu vorum ekki nema 6 daga í ferðinni en þetta lengdist um einn sólarhring vegna þess að flugvellir heima lokuðust vegna gossins í Eyjafjallajökli. Það var bara fínt og enginn aukakostnaður fylgdi í kjölfarið.
Búin að kaupa mynd
Einn daginn fórum við á torg eða svæði þar sem listamenn koma saman og selja afurðir sínar. Steinunn gat ekki á sér setið og keypti mynd og þarna sést þegar hún hafði tekið við henni. Sú sem hjá henni stendur er eiginkona listamannsins sem málaði myndina.
Við kynntumst þarna hjónunum Angantý og Eddu. Hann er sparisjóðsstjóri í Keflavík og hann er líka bróðir Kidda Jónasar, bæjarstjóra Snæfellsbæjar, sem var með mér á Bifröst. Þetta er ágætisfólk sem gaman var að spjalla við.
Einn daginn fórum við í skoðunarferð um borgina með farastjóranum henni Erlu. Þetta var hefðbundin ferð sem endaði á að skoða dómkirkjuna sem er gríðarstór, sú þriðja stærsta af þessari gerð í heiminum. Hinar eru Péturskirkjan í Róm og Pálskirkja í London. Þarna var kista Kólumbusar og fleiri mikilmenna sem ég kann ekki að nefna núna. Kirkjan er gríðarlega stór og flott en samt einhverra hlua vegna ekki mjög heillandi að mínu mati. Kannski er ég líka búinn að skoða yfir mig af kirkjum í gegnum tíðina. veit það ekki.
Þarna má sjá kirkjuturninn og innan úr kirkjunni á efri myndinni.
Mmmmmm þetta er nú aldeilis girnilegt!
Eins og ég sagði þá frestaðist heimferðin um einn dag vegna gossins. Við vorum búið að tékka út af hótelinu þegar við fengum boðin en svo heppilega vildi til að við gátum fengið herbergið áfram þannig að þetta varð bara bónus upp á einn sólarhring.
Þessi ferð varð að öllu leyti hin ánægjulegasta og vel þess virði að hafa farið hana.
No comments:
Post a Comment