Þegar Stína á Ásbjarnarstöðum varð sextug, að mig minnir, fékk hún eina gistinótt í afmælisgjöf. Þetta var á árinu 2009 en þar sem gjöfin var ekki notuð það árið, ákváðum við að taka þau þau með í ferðalag núna í sumar. Steinunn stóð fyrir því að sjálfsögðu. Ákveðið var að fara á Snæfellsnes enda hafði Stína aldrei farið þar um en Lolli þó eitthvað verið þar á ferð, m.a. í kórferðalagi.
Við lögðum af stað fyrir hádegi laugardaginn 3. júlí og hittum Lolla og Stínu í Hyrnunni í Borgarnesi. Þar voru líka komin Þórdís og Grétar. Til þess að halda nú daginn út þá var snæddur hádegisverður í veitingastofunni. Ágætismatur á fínu verði og það sem best var, afskaplega vel útilátinn.
Eftir hádegisverðinn var haldið af stað vestur Mýrarnar og ekið upp að Rauðamelsölkeldu. Eins og margir vita er smáspölur frá bílastæðinu að sjálfri ölkeldunni og þangað gengum við að sjálfsögðu. Fengum okkur sopa af þessu bráðholla vatni sem smakkast nú ekkert sérstaklega vel. Það er þó skárra á bragðið heldur en heilsubótarvatnið sem drukkið er í Karlovy Vary í Tékklandi. Það er virkilega vondur drykkur en fólk gengur um göturnar þar þambandi þetta vatn úr sérstaklega gerðum drykkjarílátum og verður ábyggilega alheilt af öllum krankleikum á eftir. En þetta var nú útúrdúr.
Áfram var haldið og komið við í félagsheimilinu Breiðabliki en þar var haldinn sveitamarkaður með hefðbundnu sniði. Ullarvörur, sultur, hlaup og svo voru að sjálfsögðu seldar pönnukökur. Við fengum okkur þarna hressingu og héldum svo áfram.
Ekki þótti ráðlegt að ganga upp í Rauðfeldargjá en við keyrðum niður að Búðum og skoðuðum kirkjuna og umhverfið. Fallegur staður og gaman að koma þar. Hótelið þar brann til kaldra kola fyrir nokkrum árum en var endurreist nánast um leið aftur. Það er vinsæll staður elskenda eftir því sem mér skilst.
Kirkjan á Búðum
Við kirkjuna á Búðum. Þarna voru Ási og Sigga ekki mætt
Áfram var haldið og nú var farið að fréttast af Ása og Siggu, en þau voru á leiðinni. Höfðu tafist og ekki komist af stað fyrr en nokkru eftir hádegi. Þau náðu okkur svo við afleggjarann upp á Jökulhálsinn. Við keyrðum aðeins inn á þann veg og fórum í sönghellinn og kváðum eina stemmu. Fínn hljómburður í hellinum og ættu allir sem geta komið upp hljóði að koma þar við og láta í sér heyra. Veðrið var ennþá gott en þó var þarna töluverður blástur.
Þegar til Hellna var komið fórum við í Fjörukaffið og fengum okkur hressingu og héldum svo sem leið lá út á nesið og niður á Djúpalónssand. Nú var veðrið orðið eins og best varð ákosið og sólarlagið afar fallegt. Við röltum um sandinn og sumir týndu fáeina steina og tóku með sér.
Á Djúpalónssandi
Nú var komið að því að fara í kvöldverð á Hótel Hellnum. Það var nú ekki upp á marga fiska; 3-4 kótilettur á mann og ég er alveg viss um skósólarnir mínir hefðu verið þægilegri að tyggja en þetta. Kannski ekki eins góðir á bragðið! Verðið var samt ekkert skorið við nögl en herlegheitin kostuðu 3.900 kall á mann.
Þegar átinu var lokið fórum við niður á Arnarstapa skoðuðum okkur um þar og mest reyndar höfnina sem er afar falleg með sínum fjölbreyttu klettamyndunum. Við virtum fyrir okkur jökulinn en það er með ólíkindum hvað hann er að minnka. Það líða ekki margir áratugir þar til hann hverfur ef svo heldur fram sem horfir. Á Arnarstapa fengum við svo gistingu og sváfum hið besta.
Höfnin á Arnarstapa
Eftir morgunverð morguninn eftir héldum við af stað út fyrir nesið með viðkomu í Vatnshellinum sem nýlega er búið að opna. Það má ekki skoða hann nema með fylgd þannig að við slepptum því. Héldum bara áfram og keyrðum niður í Öndverðarnes. Það var nú lengra en mig minnti en við létum okkur hafa það enda ekki aftur snúið þegar komið var af stað. Þarna skoðuðum við brunninn Fálka og líka rústir byggðarinnar sem þarna var, en útgerð var stunduð frá Öndverðarnesi á árum áður. Frá Öndverðarnesi var haldið að Gufuskálum, Hellissandi og að Ingjaldshóli. Þar var rétt nýafstaðin athöfn þar sem prestur messaði yfir ættarmótsfólki. Við gátum þess vegna farið inn í kirkjuna og skoðað hana. Afar fallegt kirkjustæði þarna á Ingjaldshóli.
Kirkjan á Ingjaldshóli
Áfram var haldið fram hjá Rifi og til Ólafsvíkur en þar skoðuðum við safnið í gamla verslunarhúsinu. Í Grundarfirði fengum við okkur kaffi og skoðuðum höfnina og héldum svo sem leið lá að Bjarnarhöfn. Vorum svo heppin að hitta á Hildibrand húsbónda sem fór með okkur í kirkjuna og sagði okkur sögu hennar og einnig sögu ýmissa muna sem þar eru. Þetta var töluvert leikrit hjá kallinum en gaman að láta ljúga sig fullan með skemmtilegum sögum.
Kirkjan í Bjarnarhöfn
Hildibrandur á safninu
Enn var haldið áfram og ekið í Stykkishólm og aðeins skoðaður staðurinn. Ekkert gerðist þar sem í frásögur færandi nema við fengum okkur að borða enda allir orðnir svangir.
Eftir borðhaldið var ekið inn Skógarströndina og Ási og Sigga skildu við okkur við gatnamótin við Heydali. Við hin héldum sem leið lá í Borgarnes þar sem leiðir skildu og hélt hver sína leið.
Þetta var hinn ágætasti túr og fróðlegur og vonandi að norðanfólkið hafi haft bæði gagn og gaman af. Ég hafði allavega gaman af.