Sunday, October 31, 2010

Þorbjarnarfell 24. júlí 2010

Það var bjartur og skínandi fagur sumardagur þennan laugardaginn svo óhjákvæmilega greip okkur ferða- og útivistarhugur og við fórum að leggja á ráðin með hvað gera skyldi. Eftir nokkra spádóma ákváðum við að labba á Þorbjarnarfell við Grindavík og til þess að gera þetta ennþá meira spennandi  hringdum við - eins og sumstaðar endranær (!) - í Guðmund og Stínu og nema hvað; þau voru fús að koma með okkur.
Þau mættu svo hér í B19 og við ókum sem leið lá suður á Reykjanes, allt til Þorbjarnarfells. Það lætur ekki mikið yfir sér en leynir á sér þegar nær er komið. Við lögðum bílnum á þar til gerðu bílastæði og gengum sem leið lá upp vel markaðan göngustíg.

http://www.ferlir.is/?id=4212

Hér má sjá greinargóðar upplýsingar um fellið og hvar þar er að finna. Sjálfsagt að nota það sem áður hefur verið gert; ekki alltaf vera að finna upp hjólið.

Við gengum sem sagt sem leið lá alveg upp á hæsta topp fellsins sem mun vera 243 m yfir sjó. Þarna upp eru loftnetsmastur og fleiri mannvistarleyfar. Hlýtt var í veðri og sterk sól þannig að við urðum töluvert göngumóð og gott var að kasta mæðinni og fá sér vatnssopa í góða veðrinu.

 Blásið úr nös

 Við skoðuðum Þjófagjána og könnuðum umhverfið eins og hægt var og skoðuðum okkur um í dágóða stund. Þarna uppi er frábært útsýni til allra átta. Nokkurt mistur var í lofti en þó var skyggni alveg ásættanlegt.

Horft til Grindavíkur

Eftir að niður var komið drukkum við kaffið sem var meðferðis á ágætu svæði sem búið er að útbúa rétt hjá bílastæðinu sem við lögðum á.


Í Þjófagjá


Þessi er líka úr Þjófagjá

Að lokinni kaffidrykkju ókum við sem leið lá til Grindavíkur og svo með ströndinni í átt að Krýsuvík. Nutum útsýnis og veðurblíðunnar í ríkum mæli. Hörmulegt er að sjá sárið eftir kirkjuna í Krýsuvík, sem einhverjir ólánsunglingar úr Hafnarfirði brenndu til ösku síðasta vetur.

Ekkert bar til tíðinda á heimleiðinni, en þegar komið var í Byggðarendann var grillað og síðan notið góðs matar og drykkjar og síðast en ekki síst góðs félagsskapar.

Gengið á Langholtsfjall 4. apríl 2010

Sunnudaginn 4. apríl 2010 var blíðskaparveður en engin leið að hanga bara í borginni yfir ekki neinu. Við ákváðum því að leggja land undir fót og fara í bíltúr eitthvað austur í sveitir. Við svo sem vissum ekki hver við ætluðum en tókum fljótt stefnuna á uppsveitir Árnessýslu og Hrunamannahreppurinn varð fyrir valinu. Ókum upp Skeiðaveg og virtum fyrir okkur blómleg býli og blá fjöll í fjarska. Það var ennþá vetrargrámi yfir öllu eins og eðlilegt má telja en samt mátti vel merkja að vorið var ekki langt undan. 
Við keyrðum sem leið lá inn á Langholtsveginn og upp á tjaldstæðið við Álfaskeið. Það var að sjálfsögðu ekki komið í gagnið á þessu vori frekar en önnur tjaldstæði landsina en þau opna alla jafna ekki fyrr en um miðjan maí.
Við lögðum bílnum á stæðinu og ákváðum að ganga á Langholtsfjallið sem er nú ekki mjög hátt en kallast þó fjall eigi að síður. Þetta var frekar auðveldur göngutúr en að sjálfsögðu aðeins á fótinn. Þarna upp er fínt útsýni til allra átta, til dæmis blasir Hekla við í öllu sínu veldi í austurátt og í vesturátt sér til Skálholts og í Biskupstungur. Við stoppuðum þarna dágóða stund og tókum myndir.
 Horft til Heklu


Steinunn á toppnum
Flúðir
Horft til Skálholts
Þegar niður af fjallinu kom var drekkutími og síðan haldið heim á leið. Við ókum til baka vestan við Langholtið og skoðuðum sumarbústaði sem þar eru fjölmargir, enda útsýni með afbrigðum gott. Fórum í gegnum Flúðir og og svo heim.

Saturday, October 30, 2010

Ferð í Fjótshlíð 27.3.2010. Horft á gosið

Það var aðfararnótt 21. mars, afmælisdags Steinunnar og fermingardags Viktors Gauta, sem gos hófst í Fimmvörluhálsi. Gosið þótt fréttnæmt og hópaðist fólk þarna austur til að berja herlegheitin augum. Þessa daga fyrst eftir gos var ágætisveður og mikil traffík þarna austur, sérstaklega af jeppafólki sem keyrði yfir Mýrdalsjökul og komst með þeim hætti alveg að gosinu.
Við hugsuðum okkur strax að gaman væri að fara og líta á þetta en á gosdaginn fyrsta var Viktor fermdur og veislan var haldin hjá okkur og síðan dróst þetta í nokkra daga.
Það var síðan laugardaginn 27. mars að veðrið var afar bjart og fallegt og þá ákváðum við að láta til skarar skríða og drífa okkur austur. Hringdum í Guðmund og Stínu og reyndust þau hafa hug á að koma með. Þetta skipti engum togum, við brunuðum upp í Mosfellsbæ og sóttum þau hjón og Stefni son þeirra og ókum svo sem leið lá austur í Fljótshlíð. Þar var að sjálfsögðu hellingur af fólki á ferð á allskonar bílum enda allir vegir eins og á sumardegi.
Við ókum inn að Þórólfsfelli og löbbuðum aðeins áleiðis upp í það en snérum svo fljótt við, bæði vegna þess að okkur sýndist að útsýn yrði betri innar í Fljótshlíðinni og svo var ansi hvasst og kalt.
Steinunn
 Við ákváðum því að keyra innar og svo innar og alltaf kom gosið betur og betur í ljós. Þórsmörkin blasti við og skartaði sínu fegursta miðað við árstíma og það má með sanni segja að ekki var hægt að fá bjartara veður.
Horft yfir til Þórsmerkur
Við ókum innar og innar og á einum stað stoppuðum við og gengum upp á smá hæð þar sem vel sást til gossins. Það var nokkuð stíf norðanátt og frekar kalt en hressandi og útsýnið alveg frábært.
Kuldinn bítur kinn
Héldum síðan áfram og alveg inn á Einhyrningsflatir og þar var margt fólk saman komið. Þarna biðum við þar til myrkrið var skollið á og þá var sýnin alveg stórkostleg. Flottara en nokkurt Gamlárskvöld!
Gosið. Vel má greina hraunfossinn fyrir miðri mynd 
Gosið
Þegar við höfðum verið þarna í góða stund og tekið myndir héldum við til baka og umferðin maður minn lífs og liðinn! Það var bíll við bíl allar götur niður á Hvolsvöll en þar var það nú svo magnað að ekkert var ætilegt að fá í sjoppunni. Við brenndum því á Selfoss og gleyptum í okkur pylsur í bensínsjoppunni þar og héldum síðan sem leið lá til Reykjavíkur.
Það var magnað að fara þarna austur og horfa á þetta sjónarspil náttúrunnar.

Friday, October 29, 2010

Útilega 6.-8. ágúst 2010

Nú fer að halla sumri, daginn er tekið að stytta, dimmt er orðið á nóttum en veður góð og berjaspretta í hámarki. Við ákváðum að skella okkur í útilegu þessa ágætu helgi, bæði til að labba kannski eitthvað og svo líka til að gá að berjum. Það er nú svo skemmtilegt að við höfum það sameiginlega áhugamál að tína ber.
Guðmundur smiður hafði samband fyrir helgi og spurði almæltra tíðinda og líka hvort við ætluðum eitthvað að fara og það varð síðan raunin að við ætluðum að hitta þau. Við vorum alla tíð á því að fara ekkert langt og þess vegna var Borgarfjörðurinnn fyrir valinu.
Við lögðum af stað frekar seint á föstudeginum, ýmislegt verið að stússa yfir daginn eins og gengur. Við komum við í Borgarnesi eins og venjulega á norðurleiðinni og keyptum kost og síðan ókum við sem leið lá í Varmaland. Þar voru ekki ýkja margir en þó líklega ættarmót á einni flötinni. Við lögðum hjá rafmagnsstaur á flöt þar sem var einn lítill húsbíll sem bar það skemmtilega nafn Snabbi. Íbúar þessa bíls urðu okkur svo mikið gleðiefni um helgina.
Við vorum ekki lengi að koma okkur fyrir enda orðin þrautreynd í þeim málum og verkaskipting alveg skýr. Höfðum þessar líka fínu fiskibollur í kvöldmatinn. Ekki leið á löngu þar til þau birtust Guðmundur og Stína með Stefni son sinn. Þau eru með fellihýsti sem greiðlega gekk að reisa og það með fortjaldi og öllum pakkanum. Það rigndi svona af og til meðan á þessu stóð en að verki loknu settumst við inn í hjólhýsi og áttum ágæta kvöldstund við öl og hvítvín.
Á tjaldsvæðinu

Um nóttina hellirigndi þannig að töluvert buldi á þakinu en það var allt í lagi því það var nánast logn. Við vorum frekar seint á fótum og eftir morgunverð var ákveðið að fara í smá ferðalag og ókum við inn hjá Hallarmúla og að Veiðilæk þar sem útrásarvíkingurinn Sigurður Einarsson er að byggja sér stórhýsi. Reyndar er ekki vitað hver staðan á byggingarframkvæmdum er núna enda eigandinn eftirlýstur af Interpol. Það verður nú að segjast eins og er að maður var sleginn nokkrum óhug að koma þarna og sjá græðgina blasa við.
Veiðilækur
Þegar hér var komið sögu skein sól í heiði og hitinn var um 18 gráður á Celcius. Frá Veiðilæk ókum við í Jafnaskarð og þar var tekið til við berjatínslu enda bláar brekkur af bláberjumn. Þar bar ekki mikið á hinum illræmda birkifeta sem nú gerir allar brekkur brúnar. Við gáfum okkur góðan tíma í að tína ber og náðum bara í töluvert af fínum berjum. Ókum svo í gegnum skógræktarlandið og inn að bænum Jafnaskarði eða að hliðinu. Þar er allt í eyði eins og víðar en þó sáum við bíl þar á hlaðinu. Það er nú oft þannig að ættingjar og afkomendur nýta gömul hús til sumardvalar.
Hreðavatn
Eftir að heim kom var þetta líka fína grill með öllu tilheyrandi og síðan var setið í hjólhýsinu um kvöldið og spilað á spil. Við spiluðum Kana og líka nýtt spil sem kallast Coulon og er bara nokkuð skemmtilegt. Þau voru með þekkingu á þessu spili og miðluðu henni af hógværð og mikilli skynsemi.
Daginn eftir var sama blíðviðrið og þá var farið upp að Langavatni. Þar voru allar brekkur brúnar eftir birkifetann en samt náðum við nokkru af berjum og til dæmis smávegis af aðalbláberjum. Það var þó nokkur umferð þarna uppeftir í góða verðinu. Guðmundur og Stefnir reyndu að veiða en ekki var bröndu að hafa. Á bakaleiðinni fundum við ágætis aðalbláberjalyng sem við tókum af.
Á leiðinni upp að Langavatni
Þegar heim á tjaldsvæði var komið var dagskráin að mestu tæmd. Við tókum saman og þau Guðmundur og Stína líka og svo fór hver sína leið.

Thursday, October 28, 2010

Sviðamessa 16. október 2010

Það er árlegur viðburður að haldin er svokölluð sviðamessa í Hamarsbúð á Vatnsnesi. Það er félagsskapurinn Húsfreyjurnar sem standa fyrir þessari messugjörð og er þetta núna þrettánda árið sem messan er haldin. Þarna eru á borð borin, eins og nafnið bendir til, svið bæði heit og köld og líka sviðalappir ásamt kartöflumús og rófustöppu.

Húsfreyjurnar

Lolli er mikill höfðingi og hann tók sig til og bauð okkur að kom í ár og að sjálfsögðu þáðum við það góða boð. Hann bauð einnig Þórdísi og Grétari og við lögðum land undir fót á laugardagsmorguninn og ókum sem leið lá norður. Áttum viðkomu í Borgarnesi þar sem við fengum okkur kaffi og meððí og komum svo aðeins við í Hyrnunni til að kaupa lottó. Þar kom það skemmtilega í ljós að ég átti vinninga á tveimur gömlum lottómiðum og gladdi það mitt gamla hjarta. Annar þessara vinninga var töluverð fjárhæð.

Þegar til Hvammstanga kom þá fórum við beint í húsið hennar Stínu Jósefs og komum okkur þar fyrir. Steina og Dísa fóru í heimsókn til Jóns Gests og dvöldu þar í tvo tíma. Þegar klukkan var að ganga átta drifum við okkur af stað úteftir í tölvuverðri rigninu og svartamyrkri. Vegurinn var blautur og holóttur og svo var maður með varann á vegna hrossa sem oft eru að þvælast meðfram veginum.

Við tókum okkur svo sæti við borð sem Lolli hafði tekið frá fyrir sig og sitt fólk.

Lolli til hægri, Þórdís til vinstri

Veislustjóri á messunni var Karl Th. Birgisson og stóð hann sig ágætlega. Sérstakir gestir voru Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall og sungu þeir og voru skemmtilegir.


Þingmennirnir

Guðmundur Þorbergsson á Neðra Núpi, Guðmundur í neðra,  var þarna líka og stóð fyrir fjöldasöng og spilaði undir á harmonikkuna sína. Góður að vanda og lauk sínu hlutverki með því að syngja Bjórkjallarann með tilþrifum.
Það var heilmikið stuð á fólki og mikið sungið.

Allt fór þetta vel fram og voru vorum við komin aftur í hús á Hvammstanga fyrir miðnætti.

Á sunnudeginum var svo heilmikil dagskrá. Fyrst fórum við út að Ásbjarnarstöðum í hádegismat og það var að sjálfsögðu læri með öllu tilheyrandi. Boð höfðu komið frá Stínu um að við mættum ekki fá okkur eftirrétt á Ásbjarnarstöðum og þess vegna drifum við okkur fram að Þorgrímsstöðum og fengum þar heita rabbarbaratertu með ís.

Þá var að snara sér til baka inn á Hvammstanga og þar beið okkar vöfflukaffi hjá Siggu. Var þá óhætt að segja að við værum fullsödd orðin. En mikið lifandis skelfing voru þetta allt góðar veitingar.

Að öllu þessu áti loknu var ekkert eftir annað en aka suður á bóginn aftur og heim vorum við komin rúmlega hálfátta um kvöldið.

Þetta var ljómandi skemmtilegur túr og gekk vel í alla staði.

Tuesday, October 26, 2010

Gönguklúbbur Langholtskórsins

Um margra ára skeið hefur verið starfræktur gönguhópur hóps fólks sem einhverntíma hefur verið starfandi með Kór Langholtskirkju. Þessi hópur hefur gengið af og til en ekki neitt reglulega, það er að segja eiginlega mjög óreglulega. Hópurinn hittist í sumar að forgöngu Guðmundar og Stínu og þá var gengið um Mosfellsbæ og síðan voru veitingar í boði þeirra hjóna í Arkarholtinu.


Í Arkarholti

Í lok þess atburðar var ákveðið að við Steinunn sæjum um næsta göngutúr. Við ákváðum að ganga sunnudaginn 26. september og völdum að ganga í kringum Vífilsstaðavatn og upp á Gunnhildi (!) sem er hæð í nágrenni vatnsins. Þar sem ekki er mætinga- eða tilkynningaskylda vissum við svo sem ekki hversu margir myndu mæta. Það kom þó fljótlega í ljós að þau Guðmundur og Stína myndu mæta.

Nema hvað, þennan sunnudagsmorgun var aldeilis bálhvasst af suðri eða suðvestri og gekk á með skúrum. Við létum það þó ekki hafa nein áhrif á okkur og mættum á svæðinu kl. 11:00 og þar voru fyrir Guðmundur og Stína og Dóri og Dísa. Við létum okkur hafa það og gengum upp á Gunnhildi og síðan í kringum vatnið.  Það var ansi hressandi, því er ekki að neita.

Að göngutúrnum loknum fórum við í golfskálann við Vífilsstaðaveginn og fengum okkur þessa líka fínu sveppasúpu með góðu brauði og svo kaffi á eftir. Það sem best var að þetta kostaði skid og ingenting.

Þetta var hinn ágætasti göngutúr og fínn félagsskapur. Eftir hádegið fór ég svo á hátíð á Kjalarnesi þar sem flygillinn sem Óli gaf Karlakór Kjalnesinga var vígður en það er önnur saga.

Friday, October 15, 2010

Ferð á Snæfellsnes í júlí

Þegar Stína á Ásbjarnarstöðum varð sextug, að mig minnir, fékk hún eina gistinótt í afmælisgjöf. Þetta var á árinu 2009 en þar sem gjöfin var ekki notuð það árið, ákváðum við að taka þau þau með í ferðalag núna í sumar. Steinunn stóð fyrir því að sjálfsögðu. Ákveðið var að fara á Snæfellsnes enda hafði Stína aldrei farið þar um en Lolli þó eitthvað verið þar á ferð, m.a. í kórferðalagi.
Við lögðum af stað fyrir hádegi laugardaginn 3. júlí og hittum Lolla og Stínu í Hyrnunni í Borgarnesi. Þar voru líka komin Þórdís og Grétar. Til þess að halda nú daginn út þá var snæddur hádegisverður í veitingastofunni. Ágætismatur á fínu verði og það sem best var, afskaplega vel útilátinn.
Eftir hádegisverðinn var haldið af stað vestur Mýrarnar og ekið upp að Rauðamelsölkeldu. Eins og margir vita er smáspölur frá bílastæðinu að sjálfri ölkeldunni og þangað gengum við að sjálfsögðu. Fengum okkur sopa af þessu bráðholla vatni sem smakkast nú ekkert sérstaklega vel. Það er þó skárra á bragðið heldur en heilsubótarvatnið sem drukkið er í Karlovy Vary í Tékklandi. Það er virkilega vondur drykkur en fólk gengur um göturnar þar þambandi þetta vatn úr sérstaklega gerðum drykkjarílátum og verður ábyggilega alheilt af öllum krankleikum á eftir. En þetta var nú útúrdúr.
Áfram var haldið og komið við í félagsheimilinu Breiðabliki en þar var haldinn sveitamarkaður með hefðbundnu sniði. Ullarvörur, sultur, hlaup og svo voru að sjálfsögðu seldar pönnukökur. Við fengum okkur þarna hressingu og héldum svo áfram.
Ekki þótti ráðlegt að ganga upp í Rauðfeldargjá en við keyrðum niður að Búðum og skoðuðum kirkjuna og umhverfið. Fallegur staður og gaman að koma þar. Hótelið þar brann til kaldra kola fyrir nokkrum árum en var endurreist nánast um leið aftur. Það er vinsæll staður elskenda eftir því sem mér skilst.
Kirkjan á Búðum

Við kirkjuna á Búðum. Þarna voru Ási og Sigga ekki mætt
Áfram var haldið og nú var farið að fréttast af Ása og Siggu, en þau voru á leiðinni. Höfðu tafist og ekki komist af stað fyrr en nokkru eftir hádegi. Þau náðu okkur svo við afleggjarann upp á Jökulhálsinn. Við keyrðum aðeins inn á þann veg og fórum í sönghellinn og kváðum eina stemmu. Fínn hljómburður í hellinum og ættu allir sem geta komið upp hljóði að koma þar við og láta í sér heyra. Veðrið var ennþá gott en þó var þarna töluverður blástur.
Þegar til Hellna var komið fórum við í Fjörukaffið og fengum okkur hressingu og héldum svo sem leið lá út á nesið og niður á Djúpalónssand. Nú var veðrið orðið eins og best varð ákosið og sólarlagið afar fallegt. Við röltum um sandinn og sumir týndu fáeina steina og tóku með sér.
 Á Djúpalónssandi
Nú var komið að því að fara í kvöldverð á Hótel Hellnum. Það var nú ekki upp á marga fiska; 3-4 kótilettur á mann og ég er alveg viss um skósólarnir mínir hefðu verið þægilegri að tyggja en þetta. Kannski ekki eins góðir á bragðið!  Verðið var samt ekkert skorið við nögl en herlegheitin kostuðu 3.900 kall á mann.
Þegar átinu var lokið fórum við niður á Arnarstapa skoðuðum okkur um þar og mest reyndar höfnina sem er afar falleg með sínum fjölbreyttu klettamyndunum. Við virtum fyrir okkur jökulinn en það er með ólíkindum hvað hann er að minnka. Það líða ekki margir áratugir þar til hann hverfur ef svo heldur fram sem horfir. Á Arnarstapa fengum við svo gistingu og sváfum hið besta.

 Höfnin á Arnarstapa
Eftir morgunverð morguninn eftir héldum við af stað út fyrir nesið með viðkomu í Vatnshellinum sem nýlega er búið að opna. Það má ekki skoða hann nema með fylgd þannig að við slepptum því. Héldum bara áfram og keyrðum niður í Öndverðarnes. Það var nú lengra en mig minnti en við létum okkur hafa það enda ekki aftur snúið þegar komið var af stað. Þarna skoðuðum við brunninn Fálka og líka rústir byggðarinnar sem þarna var, en útgerð var stunduð frá Öndverðarnesi á árum áður. Frá Öndverðarnesi var haldið að Gufuskálum, Hellissandi og að Ingjaldshóli. Þar var rétt nýafstaðin athöfn þar sem prestur messaði yfir ættarmótsfólki. Við gátum þess vegna farið inn í kirkjuna og skoðað hana. Afar fallegt kirkjustæði þarna á Ingjaldshóli.
 Kirkjan á Ingjaldshóli

Áfram var haldið fram hjá Rifi og til Ólafsvíkur en þar skoðuðum við safnið í gamla verslunarhúsinu. Í Grundarfirði fengum við okkur kaffi og skoðuðum höfnina og héldum svo sem leið lá að Bjarnarhöfn. Vorum svo heppin að hitta á Hildibrand húsbónda sem fór með okkur í kirkjuna og sagði okkur sögu hennar og einnig sögu ýmissa muna sem þar eru. Þetta var töluvert leikrit hjá kallinum en gaman að láta ljúga sig fullan með skemmtilegum sögum.
Kirkjan í Bjarnarhöfn
Hildibrandur á safninu
Enn var haldið áfram og ekið í Stykkishólm og aðeins skoðaður staðurinn. Ekkert gerðist þar sem í frásögur færandi nema við fengum okkur að borða enda allir orðnir svangir.
Eftir borðhaldið var ekið inn Skógarströndina og Ási og Sigga skildu við okkur við gatnamótin við Heydali. Við hin héldum sem leið lá í Borgarnes þar sem leiðir skildu og hélt hver sína leið.
Þetta var hinn ágætasti túr og fróðlegur og vonandi að norðanfólkið hafi haft bæði gagn og gaman af. Ég hafði allavega gaman af.

Hvammstangi - Þórdísarlundur í júní

Héldum af stað norður á Hvammstanga eftir vinnu þann 16. júní. Okkur sýndist upplagt að taka frí á föstudeginum eftir sautjándann.  Við vorum komin um kvöldmatarleytið og settum okkur niður við kirkjugarðinn. Þar fór vel um okkur enda rólegir nágrannar.
Kirkjan í Kirkjuhvammi

Um kvöldið fórum við í kvöldkaffi til Siggu og Ása.
Á sautjánandum fórum við fyrir hádegi að heimsækja Jón Gest. Hann var hress þó hann eigi orðið erfitt með að bera sig um. Andinn er samur við sig. Þegar þessu lauk var farið fram að Laugarbakka að skoða markað sem þar var og fór Sigga með okkur.
Eftir markaðinn var farið út á Nes og stoppað lengi dags á Ásbjarnarstöðum. Þar var plönuð ferð á Snæfellsnes sem ákveðið er að fara 3. júlí n.k. Skruppum aðeins til Stínu fram að Þorgrímsstöðum. Um kvöldið grilluðum við silung og hvannaleggi og að lokum fórum við smá kvöldgöngu og skoðuðum líka kirkjugarðinn.
Morguninn eftir brugðum við okkur í sturtu til Siggu og svo í kaupfélagið að kaupa kost. Ákváðum að kaupa folaldapiparsteik sem leit ljómandi vel út. Skoðuðum svo Selasafnið en það er ljómandi vel uppsett og gaman að koma þar. Aðeins var kíkt inn í Bardúsu úr því við vorum á staðnum! Síðan var skroppið í gróðurhúsið til Lillu Páls og Sigga. Þau voru hress og kát. Lilla var að slá með sláttutraktor. Eða endingu var farið í kaffi og rabbabaratertu til Siggu og Ása.
 
Á selasafninu

Eftir alla þessa dagskrá ókum við austur í Þórdísarlund og komum okkur þar fyrir. Fljótlega komu Imma og Villi og settu sig niður rétt hjá okkur. Um áttaleytið um kvöldið fórum við í heimsókn til Gunnu frænku þar sem ég (EG) tók við hana rúmlega klukkutíma langt viðtal. Kári frændi var þarna líka og er meiningin að taka viðtal við hann síðar. Ég er aðeins að reyna að fræðast um sögu Rútsstaðasystkinanna og lífið þegar þau voru að alast upp.
Anna og Runólfur komu svo um tíuleytið til Gunnu. Það var mikið spjallað og spekúlerað var þetta notaleg stund. Með kvöldinu fór að fjölga í lundunum þegar Sigga og Hjalti og Ólafur og Birna mættu á svæðið.
Á laugardeginum var árlegur vinnudagur Húnvetningafélagsins í Þórdísarlundi. Það er búið að gera aðstöðuna þarna afar myndarlega og svæðið allt hið skemmtilegasta. Verkefni vinnudaga sem þessa eru að lagfæra það sem þarf, skoða girðinguna og grisja í skóginum. Þetta gekk allt saman afar vel undir styrkri stjórn formanns skógræktarnefndar, Ingimundar Benediktssonar.

 Ingimundur ábúðarfullur
Um kvöldið var sameiginlegt grill en síðan var farið í húsin en það var strekkingsvindur og ekki mjög hlýtt. Eftir borðhald úti við drógum við okkur inn í hús og sungum svolítið og spjölluðum.
Við grillið
Á sunnudeginum var allt rólegt fram um hádegi en þá tókum við okkur saman og héldum heim á leið og þangað vorum við komin um miðjan daginn.
Fínn túr sem gekk að öllu leyti ljómandi vel.