Tuesday, September 14, 2010

Þórisstaðir um Hvítasunnuna

Það er orðinn árlegur viðburður að fara í útilegu um Hvítasunnuna með Ingibjörgu og Vilhjálmi. Fyrsta ferðin sem farin var var vorið sem við fengum hjólhýsið, nefnilega vorið 2005. Þá fórum við í Hellishóla og það mun hafa verið 14. maí 2005 ef mig misminnir ekki.
Hvað um það nú var ákveðið að fara í Þórisstaði í Svínadal. Við lögðum af stað á laugardagsmorgni og komum okkur fyrir. Villi og Imma höfðu mætt á svæðið kvöldið áður og undu hag sínum hið besta.
Á tjaldstæðinu
Eftir smá kaffisopa og meððí var farið í göngutúr upp á hálsinn sem er þarna sunnan- eða austanvert í dalnum. Fórum reyndar ekki alla leið og var kannski mér um að kenna. Leti og bakverkur. Grilluðum um kvöldið og áttum huggulega stund.

Borðhaldið

   Daginn eftir á Hvítasunnudag tókum við á rás og fórum í góðan bíltúr. Byrjuðum á að fara og skoða Saurbæjarkirkju þar sem Hallgrímur sálugi Pétursson þjónaði og orti Passíusálmana. Veðrið var hreint ágætt, sólskin og sæmilega hlýtt en nokkur vindur.

Saurbæjarkirkja



 Villi og Imma


Frá Saurbæ lá leiðin í Borgarnes þar sem við skoðuðum brúðusafn og fengum okkur kaffi og þær matarmestu vöfflur sem ég man eftir. Þær voru góðar!

Úr brúðusafninu
 Eftir Borgarnes fórum við í handverkshúsið við Laxá en þar var áður Sláturfélag Suðurlands. Ekki var þetta nú afskaplega merkilegt að mínu viti. Þarna var þó slatti af konum að selja allan fjandann eins og venja er til og þarna var líka hægt að fá kaffi og með því og ef vel var að gáð mátti finna kaldan í kæli. Veitingar voru samt ekki þegnar þarna. 
Síðan lá leiðin upp í Reykholtsdal og að Deildartungu þar sem er vatnsmesti hver á landinu. Þaðan kemur heita vatnið sem hitar til að mynda Akranes.
Frá Deildartunguhver

Eftir þetta var haldið heim á leið. Þess má geta að við fórum í bifreið þeirra Vilhjálms og Ingibjargar og var það afar notalegt og þægilegt.
Um kvöldið var grill og fínerí í ljómandi vorveðri.
Þá var nú gleði og gaman

Mikinn þorsta sótti að Vilhjálmi við bæjarlækinn í Saurbæ


Annar í Hvítasunnu var bjartur og fagur eins og Hvítasunnudagurinn og við fórum fljótlega eftir morgunmat að taka saman og búa okkur undir heimferð. Dóluðum svo suður á bóginn í kringum hádegið.
Þessi helgarferð var í alla staði afar vel heppnuð og skemmtileg og lofar góðu um ferðasumarið.
Úr Skorradal

Thursday, September 9, 2010

Haustferð IÐUNNAR

Laugardaginn 4. september var farin hin árlega haustferð IÐUNNAR fræðsluseturs. Í fyrra var farið austur að Hlöðufelli í frekar leiðinlegu veðri og síðan gist á Laugarvatni. Það var fín ferð og myndarleg í alla staði.
Nú skyldi haldið á Snæfellsnesið.
Ferðalangar mættu við aðsetur IÐUNNAR kl. 9:00 og lagt var af stað um hálf níuleytið. Hópurinn samanstóð af 24 manneskjum, starfsmönnum og mökum þeirra. Umsjónarmaður ferðarinnar var  Þórey Thorlacius.


Uppi á hól           Birgir Hólm tók myndina

Til þess að enginn þyrfti nú að kveljast úr hungri á leiðinni var boðið upp á smurð rúnnstykki og kók eða ávaxtasafa. Því voru gerð góð skil.
Ekið var sem leið liggur vestur á Arnarstapa í frekar þungskýjuðu veðri og gekk reyndar á með skúrum og jafnvel hellidembum á leiðinni.


Frá Arnarstapa 

Þegar á Arnarstapann kom stytti alveg upp og gekk hópurinn til Hellna en þangað eru 2,5 km frá Arnarstapa. Ekki var gengið afskaplega hratt og tók göngutúrinn hátt í klukkutíma.


Göngutúrinn



Við Arnarstapa

Þegar að Hellnum kom var farið í litla veitingahúsið við fjöruna og þar beið okkar þessi líka fína fiskisúpa ásamt brauði og tilheyrandi. Súpan var aldeilis fín og vel þegin. Meðan á borðhaldinu stóð afhenti Hildur framkvæmdastjóri hverjum starfsmanni umslag með aðgangskorti að fjórum sýningum í Þjóðleikhúsinu. Aldeilis myndarlegt það.


Hildur Elín

Að súpunni lokinni var haldið af stað á ný og keyrt sem leið lá fyrir Nesið. Það var nú það lágskýjað að ekkert sást til jökulsins. Það hafði staðið til að fara niður á Djúpalónssand en af því varð nú ekki þar sem það fór að hellirigna. Það var magnað að það stytti akkúrat upp þennan klukkutíma sem við vorum á labbinu. Þetta var talið til dæmis um góða tengingu Þóreyjar við almættið.
Það má alveg geta þess að þegar í rútuna var komið á Hellnum var dreift bjór á liðið eins og hver vildi. Þá voru margar feginshendur á lofti.
Ferðin var tíðindalaus þar til komið var til Stykkishólms en þar var farið beint í bruggverksmiðjuna sem framleiðir bjórinn Jökul. Þar var boðið upp á bjór af mörgum gerðum og síðan fræddi eigandinn okkur um fyrirtækið og framleiðsluferilinn. Það var bara nokkuð bjart í honum hljóðið og hann var vongóður varðandi framtíðina.


Bjórkynningin

Að þessari kynningu og bjórdrykkju lokinni var haldið heim í húsið þar sem skyldi gist og það var ekki að sökum að spyrja; bjórinn var borinn í hús í nánast kippum. Eins og áður var þetta vel þegið.
Rúmlega klukkan átta mættum við svo á Narfeyrarstofu í mat. Þessi staður gekk reyndar undir nafninu Nærverustofa! Þarna var borinn fram þessi fíni matur, lambakjöt og svo tiramisu á eftir. Allt þetta var í boði fyrirtækisins. Þegar máltíðinni lauk var farið í partí í einu húsanna og sem fyrr var þar gnægð drykkjarfanga en allir umgengust þau af mikilli hógværð.
Óli Ást og Biggi Hólm spiluðu á gítara undir fjöldasöng og fórst það vel úr hendi.
Um eittleytið var svefninn farinn að sækja á mannskapinn og lauk partíinu skömmu eftir það eftir því sem best er vitað.
Morguninn eftir var lítil dagskrá nema fá sér morgunmat og fara síðan í bæinn. Þangað var komið um hálftvö leytið og eftir það bara beint heim.
Þetta var að öllu leyti hin besta ferð og höfðinglega framkvæmd í alla staði.
Kærar þakkir fyrir mig.

Steinunn tók allar myndirnar nema eina sem merkt er Birgi Hólm.

Friday, September 3, 2010

Sevilla í maí

Þegar Steinunn átti afmæli í mars þá datt mér í hug að kaup ferð til Sevilla. Steinunni hafði lengi langað til að fara þangað en ekki hafði af því orðið. Ferðin var keypt hjá Heimsferðum og við lögðum af stað þann 13. maí. Það höfðu verið miklar pælingar með hótel og þegar Steina hafði sambandi við ferðaskrifstofuna kom í ljós að hótelið sem ég hafði valið var langt frá miðbænum þannig að hún fékk skipt og við fórum á Hotel Becquer sem er alveg í miðbænum.


Ferðin út gekk vel og tók fararstjóri á móti okkur á flugvellinum og við fórum í rútu á hótelið. Þetta reyndist vera hið flottasta hótel og vel staðsett. Allt mjög snyrtilegt og ágætt.



Við fórum strax í bæinn þegar við vorum búin að koma okkur fyrir. Gengum um og skoðuðum hús og verslanir.


Við reyndum að skoða sem mest af borginni en þarna búa um 700 þús. manns, en Sevilla er höfðuðborg Andalúsíu. Borgin er afar gömul og á sér merka sögu allt frá tímum Mára og Rómverja.

                    Mannlíf er þarna afar líflegt, alltaf fullt af fólki á götunum og í verslunum og byggingar margar afar fallegar.
 
 
 Iðandi mannlíf á götunum


Það var ljómandi fínt veður alla dagana, hitinn rúmlega 25 gráður en var svo kominn yfir 30 gráður síðustu dagana. Við að vísu vorum ekki nema 6 daga í ferðinni en þetta lengdist um einn sólarhring vegna þess að flugvellir heima lokuðust vegna gossins í Eyjafjallajökli. Það var bara fínt og enginn aukakostnaður fylgdi í kjölfarið.

Búin að kaupa mynd


Einn daginn fórum við á torg eða svæði þar sem listamenn koma saman og selja afurðir sínar. Steinunn gat ekki á sér setið og keypti mynd og þarna sést þegar hún hafði tekið við henni. Sú sem hjá henni stendur er eiginkona listamannsins sem málaði myndina.

Við kynntumst þarna hjónunum Angantý og Eddu. Hann er sparisjóðsstjóri í Keflavík og hann er líka bróðir Kidda Jónasar, bæjarstjóra Snæfellsbæjar, sem var með mér á Bifröst. Þetta er ágætisfólk sem gaman var að spjalla við.

Einn daginn fórum við í skoðunarferð um borgina með farastjóranum henni Erlu. Þetta var hefðbundin ferð sem endaði á að skoða dómkirkjuna sem er gríðarstór, sú þriðja stærsta af þessari gerð í heiminum. Hinar eru Péturskirkjan í Róm og Pálskirkja í London. Þarna var kista Kólumbusar og fleiri mikilmenna sem ég kann ekki að nefna núna. Kirkjan er gríðarlega stór og flott en samt einhverra hlua vegna ekki mjög heillandi að mínu mati. Kannski er ég líka búinn að skoða yfir mig af kirkjum í gegnum tíðina. veit það ekki.




Þarna má sjá kirkjuturninn og innan úr kirkjunni á efri myndinni.

Borgin skiptist í tvennt þar sem áin Guadalquvir rennur í gegnum hana. Við fórum nokkrum sinnum yfir ána því þar eru margir matsölustaðir á árbakkanum. Eitt kvöldið þegar við komum þar ætlaði ég að fá mér nautasteik og fann eina álitlega á matseðli. Við vorumþarna um áttleytið en staðurinn opnaði óvart ekki fyrr en klukkan níu!! Ekki át ég nautasteik í það skiptið. Almennt var matur bara ágætur á þeim stöðum sem við fórum á. Við prófuðm bæði fisk- og kjötrétti. Fórum eitt kvöldið frekar fínt að okkur fannst og borðuðum úti við dúkað borð. Ég sá alveg að þar sem voru dúkuð borð var betri matur. Þarna fengum við fínam mat og gott vín og góða þjónustu og alls ekki dýrt. Þrátt fyrir að gengið sé svona brjálað eins og raun ber vitni er samt ódýrara að borða úti í Sevilla en í Reykjavík.


Mmmmmm þetta er nú aldeilis girnilegt!


Eins og ég sagði þá frestaðist heimferðin um einn dag vegna gossins. Við vorum búið að tékka út af hótelinu þegar við fengum boðin en svo heppilega vildi til að við gátum fengið herbergið áfram þannig að þetta varð bara bónus upp á einn sólarhring.

Þessi ferð varð að öllu leyti hin ánægjulegasta og vel þess virði að hafa farið hana.

Helgarferðir

það eru þrjár helgarferðir framundan.

Um þessa helgi förum við á Snæfellsnes með Iðunni þar sem Steinunn vinnur. Í fyrra var keyrt frá Þingvöllum að Hlöðufelli og svo niður á Laugarvatn þar sem mikil gleði var haldin og gist.

Helgina 8.-10.  október verður haustferð jeppahópsins og verður þá farið norður í Langadal í Húnavatnssýslu.

Síðan er helgarferð á Akureyri þann 5. nóvember þar sem gert er ráð fyrir að fara í leikhús og eitthvað fleira.

Alltaf nóg að gera í ferðafélaginu!

Thursday, September 2, 2010

Kanaríeyjar í febrúar

Í Árbæjarkórnum var fyrir löngu búið að taka ákvörðun um að fara til Kanaríeyja og upphaflega átti að fara í ársbyrjun 2009 en þá var hrunið í öllu sínu veldi þannig að ferðinni var frestað þar til á þessu ári.


                               Svona er febrúar á Kanaríeyjum


Ferðin hófst 10. febrúar 2010 og var flogið í leiguflugi beint til Kanarí. Það gekk allt bara vel og við komumst heilu og höldnu heim á hótel Buenaventura. Þetta er rosastórt hótel með rúmlega 700 herbergjum. Sem dæmi um strærðina má geta þess að frá lyftudyrunum á hæðinni sem við bjuggum á voru 180 metrar að herbergisdyrunum okkar.

Við höfðum hálft fæði sem þýðir að við fengum morgun- og kvöldmat. Okkur var úthlutað að mæta í kvöldmatinn kl. 19:30 og þá var komin löng biðröð. Svo var það bara hnefarétturinn að finna borð. Maturinn var svo sem ágætur en ekkert spennandi og alls ekki til lengdar. Búðingarnir voru ágætir. Það vildi líka þannig til að Anna systir og Runólfur mágur voru á svæðinu, höfðu komið viku fyrr. Þau hafa verið þarna margoft og þekkja allt út og inn. Þau komu fljótlega og fóru með okkur í skoðunarlabb um svæðið. Þarna voru líka hjónin Örn og Lilja sem þau Anna eru mikið með og við fórum aðeins með þeim, m.a. í mini-golf. Það var bara skemmtilegt.

Þann 12. febrúar á laugardegi fórum við til Mogán með rútu. Þetta er lítill bær við ströndina og afar fallegt þar. Við eyddum deginum þarna í að labba og skoða og fara á markað og sigldum svo langleiðina heim.

 

                               Frá Mógán
 
Einn daginn gengum við eftir ströndinni alveg út að vita. Þar eru flott hótel og dýrara svæði heldur en á Ensku ströndinni. Þetta er rúmlega klukkutímagangur í sandinum og meðal annars gengið fram hjá heilmikilli nektarnýlendu. Þar var nú margt misfagurt sem ekki verður tíundað hér. Ragna og Steini voru með okkur í göngutúrnum.


Kórinn söng við messu í sænsku kirkjunni og var hún alveg troðfull bæði af Íslendingum og útlendingum. Íslendingar eru þarna í haugum á þessum árstíma, sérstaklega fólk í eldri kantinum sem hætt er að vinna. Söngurinn tókst bara ágætlega þó lítið hafi verið æft fyrir þetta sérstaklega. Eftir messuna var smá kaffiboð hjá starfsmönnum kirkjunnar og þar sungum við aðeins meira. Organistinn þeirra tók lagið My Way við góðar undirtektir.

Einn daginn tókum við í að heimsækja Las Palmas. Við fórum bara á umferðarmiðstöðina og tókum rútuna eins og ekkert væri. Við vorum 8 saman, við, Anna og Runólfur, Ragna og Steini og svo Jón Unnar og Ólafía. Þetta gekk allt saman vel. Við vorum ekkert yfir okkur hrifin af þessum bæ. Byrjuðum á að fara í verslanamiðstöð og svo þar á eftir niður í bæ. Það var nú ekkert sérstakt vöruúrval þarna en eitthvað var nú keypt samt eins og venja er.

 
                                Þarna verið að fá sér hressingu eftir göngutúrinn út í vitann.


Ekki var mikið gert af því að borða á veitingastöðum þar sem við vorum með kvöldmat á hótelinu. Einu sinni fórum við samt og fengum okkur appelsínuönd á litlum stað í gilinu sem svo er kallað. Það er kínverskt fólk sem rekur þennan stað og öndin var alveg ljómandi góð.

Við ræddum það heilmikið hvort Kanaríeyjar væri staður sem við vildum vera áskrifendur að í einhverjar vikur á hverju ári og niðurstaðan varð sú að við vildum það ekki. Okkur þykir meira spennandi að breyta til og kannski aðrir staðir meira spennandi. Það var nú líka þannig að veðrið var bara virkilega gott fyrstu 3 dagana en svo var rigning og þokuloft svipað og heima nema auðvitað hlýrra. Það getur víst verið happdrætti með veður þarna ekki síður en annarsstaðar.

Hvað sem því líður þá var þetta ágætis ferð og fróðlegt að upplifa Kanaríeyjar í fyrsta sinn.