Tuesday, April 5, 2011

Boston í mars 2011

Vildarpunktar urðu til þess að við ákváðum að skreppa til Boston í mars. Það voru til ansi margir punktar og þegar kom tilboð um einn fyrir tvo stukkum við til og keyptum farmiðann. Það voru heilmiklar bollaleggingar um á hvaða hóteli við ættum að vera og endirinn varð sá að við pöntuðum á Hilton í Financial District- hverfinu. Það voru svo að sjálfsögðu töluverðar pælingar um hvernig ætti að verja þessum dögum en fjórir dagar á ferðalagi eru ekki lengi að líða. Það vissum við af fyrri reynslu.

Hvað um það, við drifum okkur á flugvöllinn seinnipart miðvikudagsins 23. mars, skildum bílinn eftir og flugum sem leið lá til Boston. Það gekk allt eftir áætlun og eftir smá töf á flugvellinum tókum við leigubíl á hótelið. Það er ekki svo ýkja langt af flugvellinum í bæinn, tók ca. 15-20 mín. og kostaði 12-15 dollara.
Allt var klárt á hótelinu og við fengum stórt og mjög fínt herbergi. Það var orðið kvöldsett þegar við vorum búin að koma okkur fyrir þannig að við fengum okkur smá snarl og löbbuðum aðeins út svona rétt til að ná áttum. Að því loknu var það kojan.

Morguninn eftir vöknuðum við æði snemma eins og eðlilegt er út af tímamun. Eftir morgunverð tókum við leigubíl í verslunina Target en það er markaður með allskonar vörur á góðu verði. Versluðum þar talsvert, fengum okkur svo að borða og tókum leigubíl heim. Eftir smá hvíld löbbuðum við í H&M og síðan þar um kring. Þegar því var lokið löbbuðum við á Quincy Market og skoðuðum okkur þar aðeins um. Það var ansi kalt og búið að vera allan daginn svo ekki var ýkja margt fólk á ferli. Fengum okkur að borða á frekar fínum stað og löbbuðum svo heim.

Kuldaleg
Eins og áður greindi þá var ansi kalt í Boston þessa dagana og töluverður vindur. Við svoleiðis aðstæður koma búðir sér einkar vel. Það kom okkur á óvart hvað lítið var um kaffíhús og jafnvel matsölustaði á þessu svæði. Við komumst svo að raun um að þeir eru fleiri í öðrum hverfum borgarinnar. Það er eins og vindur þarna vestra sé miklu naprari heldur en íslenska norðanáttin. Trúlega er það rakinn í loftinu sem veldur því.
Nú, nú, áfram með smjörið. Föstudagurinn fór í að skoða þá miklu verslunargötu Newbury Street og Boylston Street. Löbbuðum þessar götur í rólegheitum og kíktum aðeins í búðir.



Um kvöldið borðuðum við á fínum stað sem heitir Umbria. Þeir sérhæfa sig í að matbúa Angus - naut og gera það bara ágætlega.

Laugardaginn tókum við í að fara í útsýnis- og fræðslutúr um borgina. Fórum í rútu og bílstjórinn var fjallhress ung stúlka sem talaði stanslaust, söng og lét öllum látum. Það var fróðlegt og skemmtilegt.

Á brúnni á leið til Cambridge

Seinnipartinn vorum við svo á röltinu að sjá okkur um. Það er margt að sjá þara í Boston og mikil saga sem væri gaman að kynnast nánar en betra væri að vera þarna í hlýju og góðu veðri en ekki svona kuldasteytingi eins og var á okkur. Um kvöldið borðuðum við á Quincy Market í þvílíkum hávaða frá öðrum gestum að það var varla vært. Segir ekki gjör af því.

Á sunnudeginum fórum við að skoða safnið og kirkjuna sem Ann Baker stofnaði en hún var mikill frömuður í hugrækt og raunar í spíritisma líka. Hluti af þessu er Maparium sem er heimskort eins og kúla í laginu og maður stendur inni í. Það er ansi magnað.

Um kvöldið var svo heimferðin og gekk hún að óskum.

Niðurstaðan er sú að Boston er vel þess virði að heimsækja en betra örugglega að gera það að sumri til.

No comments:

Post a Comment