Tuesday, July 19, 2011

Söngferð til Danmerkur í júní 2011

Það var síðasta haust (2010) sem ákveðið var að Árbæjarkórinn færi í ferð til Danmerkur um Hvítasunnuna í ár og syngja þar við messu. Þessi hugmynd kom í gegnum Höllu og Tona sem þekkja fólk í Kolding en þangað var ferðinni heitið. Spurt var hverjir gætu farið og var það um helmingur kórsins sem taldi svo vera og þar á meðal ég. Miðarnir voru keyptir í nóvember og kostuðu rúmlega 30 þús. kall stykkið sem var auðvitað ekki mikið en helgaðist af því að um næturflug var að ræða.
Prógram var svo æft um veturinn því meiningin var að syngja ekki bara í Hvítasunnumessu í Kolding heldur líka tónleika í Fredericia.

Ekki þarf að orðlengja þetta frekar en ferðin hófst sem sagt með flugi til Billund kl. 0.30 þann 8. júní. Við tókum Steina og Rögnu með til Keflavíkur og skildum bílinn eftir þar. Flugið til Billund gekk ágætlega en ekkert gátum við þó sofið á leiðinnni og þónokkur bið var eftir farangri en við vorum komin heim á hótel um áttaleytið um morguninn. Það lá nú ekkert ljóst fyrir hvort við fengjum herbergi strax eða hvort við þyrftum að bíða fram yfir hádegi en sem betur fer þá voru þau tilbúin og við gátum meira að segja líka fengið morgunmat. Þetta var allt hið besta mál. Við lögðum okkur og fórum svo í smá labb með vinkonu þeirra Höllu og Tona sem sýndi okkur aðeins inn í bæinn. Tókum smá söngæfingu í spænsku tröppunum sem svo eru nefndar.










Æfing í spænsku tröppunum

Eftir það var frjáls tími. Um kvöldið borðuðum við á ágætum veitingastað sem heitir Latin og var rétt hjá hótelinu.
Á fimmtudeginum æfðum við aftur í spænsku tröppunum og svo var farið til Fredericia með lest og við sungum tónleikana kl. 19:30. Héldum æfingu um kl. 17:00 og fengum að borða kl. 18:00.
Tónleikar í Fredericia

Tónleikarnir tókust ágætlega og fengum við hressingu að þeim loknum. Makar fóru í göngutúr um nágrennið og komu hressir til baka. Höfðu fundið fína bensínstöð og gæludýrabúð í göngutúrnum. Magnhildur prestfrú hélt þó hópum frá solli og sagðist hafa verið í kallapössun.
Þegar heim var komið aftur á hótelið var sest inn á bar og spjallað og drukkið þar til kominn var rúmlega hæfilegur svefntími.

Föstudagurinn var að mestu leyti frjáls þar til kom að því að við færum í kvöldmatarboð til vinahjónanna, Ingu og Sigurgeirs. Þar var þessi líka feikna grillveisla með tilheyrandi drykkjum og eftirmat að ógleymdum forrétti. Allt var þetta með miklum myndarbrag. Boðið var upp á lambakjót og nautakjöt sem grillað var á gríðarlegu útigrilli. Búið var að koma upp stærðar tjaldi og setja þar borð þar sem matast var. Þetta var allt hið besta.
Á laugardeginum var engin dagskrá nema hvað ég og presthjónin fórum til Árósa að horfa á leik Íslendinga og Hvít-Rússa í Evrópukeppni landsliða undir 21 árs aldri. Við fórum með lestinni og þurftum að standa alla leiðina þar sem lestin var sneisafull. Við hittum svo Íslendinga á torgi niðri í bæ og svo var gengið fylktu liði upp á völl.
Því miður tapaðist leikurinn 2-0 og voru það mikil vonbrigði. Heimferðin tók langan tíma þar sem lestin gekk ekki nema til Vejle og þar biðum við í klukkutíma eftir strætó og þegar við komum til Frederica þurftum við að bíða í klukkutíma eftir lestinni til Kolding. Vorum ekki komin í áfangastað fyrr en um eittleytið. Vorum orðin ansi þreytt og ég farinn að finna vel til í bakinu.

Á sunnudagsmorgun þurftum við að rífa okkur upp í morgunmat og svo að taka strætó til kirkjunnar þar sem sungin skyldi hátíðarmessa. Það gekk allt saman ágætlega nema hvað söngurinn hefði kannski mátt vera betri að sumra mati. Eftir messuna var boðið upp á hressingu í safnaðarheimilinu.
Eftir að hafa skipt um föt fórum við í góðan göngutúr með Steina og Rögnu um bæinn. Allar verslanir voru að sjálfsögðu lokaðar en barir voru opnir og kom það sér vel.


Allt lokað!

Um kvöldið var svo lokasamkvæmið eða síðasta kvöldmáltíðin og var hún á veitingastaðnum Latin sem áður hefur komið við sögu. Þar fengum við fínar veitingar og var dvalið þar langt fram eftir kvöldi.


Og það er fjör!

Um nóttina þurftum við að rífa okkur upp og mæta út á flugvöll því við áttum að fara í loftið kl. 08:15. Við tókum leigubíl á völlinn því strætó var ekki farinn að ganga. Allt gekk eins og í sögu í gegnum flugstöðina og vélin lagði af stað á réttum tíma og flaug sem leið lá í átt til Íslands í 40 mín. Þá kom flugstjórinn í hátalarann og tilkynnti að það væri komin upp bilun og vélinni yrði snúið aftur til Billund. Eitthvað var að rafkerfinu tjáði hann okkur. Við lentum svo í Billund eftir aðrar 40 mín og þá var orðið ískalt í vélarskriflinu sem var leiguvél frá Finland Air. Öllum farþegum var smalað inn í flugstöð sagt að vera þar! Svo leið og beið þar til flugfreyjan kom í hátalarann og tilkynnti að áhöfnin færi á hótel til að hvíldartíminn væri löglegur. Og enn var beðið. Þegar komið var vel fram yfir hádegi var okkur tilkynnt að við ættum að fara á hótel og vera þar þangað til búið væri að gera við flugvélina eða gera aðrar ráðstafanir. Við fórum svo í strætó til Lególands en þar eru smáhýsi til útleigu. Við fórum í hús með Steina og Rögnu. Okkar beið kaffi og með því og um kvöldið var fínn kvöldverður að sjálfsögðu í boði Flugleiða.
Og áfram var beðið. Það voru boðaðar fréttir á klukkutímafresti eða svo en aldrei var neitt að frétta. Það verður að segjast eins og er að starfsfólkið var afskaplega almennilegt og þjónustulipurt þannig að ekki var undan neinu að kvarta að því leyti. Og áfram var beðið. 

Mynd frá biðinni er hér til vinstri

Um klukkan hálf tólf eða tólf fórum við og lögðum okkur því allir voru orðnir dauðlúnir. Svo var það um hálf tvö um nóttina að það er bankað og okkur sagt að mæta í rútu eftir korter. Við í það og svo var keyrt á flugvöllinn og það tók skamman tíma að komast í gegn þar. Innritunin frá morgninum var látin gilda. Til að sækja okkur var komin önnur vél og stærri og átti hún að koma við í Kaupmannahöfn og hirða þar upp strandaglópa sem höfðu beðið á flugstöðinni allan daginn. Ég vorkenndi því fólki.
Vélin var alveg kjaftfull frá Kaupmannahöfn en samt gátum við SMG haft 3 sæti þannig að ég gat verið á ská í tveimur sætum því það var svo helv.... þröngt og ekki hægt að halla sætunum aftur á bak.

Allt saman hafðist þetta nú og heim vorum við komin um áttaleytið um morguninn. Ég hafði átt pantaðan tíma hjá Jósep í Stykkishólmi en hafði beðið Grím að afpanta fyrir mig sem betur fer. Hefði ekki haft heilsu í að fara vestur. Við bara lögðum okkur og tókum hvíld
Segir ekki meira af þessari ferð.

No comments:

Post a Comment