Það má með sanni segja að það sé gúrkutíð hjá Ferðafélaginu B19. Engar ferðir hafa verið farnar utan að við skruppum snögga ferð til Stykkishólms í gær, 8.febrúar 2011. Fórum af stað rúmlega 10 um morguninn og vorum 2 tíma á leiðinni. Eftir að hafa lokið erindum brunuðum við í bæinn aftur, enda var spáð hávaðaroki og leiðindum sem líka kom á daginn. Það var ansi hviðótt undir Hafnarfjallinu og á Kjalarnesinu en í hviðunum fór vindhraðinn í 31 ms. Allt gekk þó vel.
Fleira er ekki af þessu að segja.
Hér fer á eftir skýring á orðinu gúrkutíð:
Orðið gúrkutíð í merkingunni 'fréttasnauður tími' er fengið að láni úr dönsku, agurketid. Það er aftur á móti fengið úr þýsku. Þar er talað um Sauregurkenzeit, þ.e. tíma (Zeit) sýrðra (saure) gúrkna (Gurken).
Sýrðar gúrkur eru sérstakar litlar gúrkur sem lagðar eru í edikslög og hafðar sem meðlæti með kjöti og fleiru. Samkvæmt þýskri orðabók frá Duden er upprunans að leita í máli kaupmanna í Berlín. Átt var við þann tíma sumars þegar gúrkurnar þroskuðust og voru lagðar í súr en á sama tíma stóðu frí sem hæst og viðskipti voru í lágmarki.
Á þessum tíma komst einnig fátt fréttnæmt að og fjölmiðlar höfðu úr litlu að moða. Merkingin gúrkutíð hefur síðan víkkað og nær nú yfir þann tíma þegar frí standa almennt sem hæst, meðal annars í þinginu, og fréttamenn eiga oft erfitt með að finna fréttaefni.
Af Vísindavefnum.
No comments:
Post a Comment