Thursday, December 29, 2011

Húnakórinn - ferðaplan 2012


Ferðaplan

4. júní - flogið með Flugleiðum til Milano á flugi FI 590 KEFMXP 16:50-22:40 ekið rakleiðis á: Hótel
Poiano ****, þar sem við gistum næstu fimm nætur m/morgunverði.

05.júní – morgunverður á hóteli.
Eftir langan ferðdag daginn áður, er ágætt að slaka á til hádegis þennan dag í sundlaugargarðinum. Kl. 13:00 fer rútan með ykkur niður í bæinn Garda, þar sem gaman er að anda að sér sögunni, innan gömlu múranna, fá sér kaffibolla eða einn kaldan og halda svo nokkurra kílómetra leið í rútunni, þar sem er að finna Museo di Olivo, eða Ólívusafnið. Þarna getur maður smakkað á allskonar afurðum úr ólívum, balsamik o.fl. Á heimleiðinni komum við í einn virtasta vínkjallara Bardolino - heyrum sögu víngerðar og fáum að smakka veigarnar, áður en við höldum heim á hótel- skiptum um föt og svo aftur í bæinn og snæðum kvöldverð á mjög sérstökum stað í gamla bænum (borðvín og vatn innifalið) - rúta heim á hótel.

06. júní - morgunverður á hóteli.
Kl. 10:00 ekið til Verona, þar sem innlendur leiðsögumaður tekur á móti okkur, sýnir okkur elstu hluta borgarinnar og upp á Borgo hæðina með stórfenglegu útsýni yfir borgina. Gengið aftur niður með viðkomu á stað þar sem sér yfir Teatro Romano, rómverska útileikhúsið, áður en komið er inn í gömlu miðborgina þar sem skoðunarferðin heldur áfram um frægustu torg og stræti - síðdegið er frjálst – glæsikvöldverður við eitt elsta torg borgarinnar (borðvín & vatn innifaldið) - rútan til baka kl. 22:00.

07. júní - morgunverður á hóteli.
Kl. 08:30 höldum við af stað til bæjarins Malcésine, tökum kláf uppá hæsta fjall svæðisins, Monte Baldo, en þaðan er ægifagurt útsýni yfir til Dolomítanna og fjallann austan héraðsins - hægt að fá sér göngutúr á fjallinu og snæða hádegisverð þar uppi. Kláfurinn tekinn niður aftur og þið eyðið síðdeginu í þessum sjarmerandi bæ með þröngum steinilögðum götum. Rútan tekin aftur heim á hótel og kvöldvepður á eigin vegum - hægt að borða á hótelinu, eða bara á einum vinsælasta pítsustaðnum á svæðinu, rétt utan við garðhlið hótelsins.

 08. júní - morgunverður á hóteli
Frjáls dagur við Garda - föstudagur er markaðsdagur í bænum og ótrúlega mikið mannlíf því fylgjandi (hægt að fara um hádegsibil í lengri eða skemmri siglingu á vatninu - rútan sækir og flytur til baka ef vill) - sameiginlegur lokakvöldverður á flottum stað í sveitinni (borðvín og vatn innifalið)

09. júní - morgunverður á hóteli - brottskráning og uppgjör reikninga.
Kl. 11:00. lagt af stað í til Toscana héraðs- endað á hóteli við ströndina, í fjórar nætur í hálfu fæði. Á leiðinni er hægt að koma við í Modena, eða Salsomaggiore - tveir ólíkir bæir, annar á miðri Pósléttunni og mestallur innan borgarmúra, hinn í fjöllóttu landi, með heitum lindum og fögrum gróðri.

10. júní - morgunverður á hóteli.
Rólegur dagur til hádegis, enn þá er ekið upp í gömlu bæina Massa og Carrara, en þaðan kemur hvítasti og fallegasti marmari veraldar. Rútan til baka heim á hótel og kvöldverður á hótelinu.

11. júní - morgunverður á hóteli.
Kl. 10:00 er ferja tekin til Cinque Terre (fimm hreppar), í sum þorpanna verður aðeins komist frá sjódeginum eytt þar og svo er báturinn tekinn til baka á hótelið - kvöldverður á hóteli.

12. júní - morgunverður á hóteli.
Kl. 10:00 er haldið til menningarperlu Ítalíu - Flórens, rúml. kl.st. akstur - á leiðinni er komið að skakka turninum í Pisa og þaðan ekin styssta leið til Flórens. Komið til baka á hótelsíðdegis - kvöldverður á hóteli

13. júní - morgunverður á hóteli - brottskaráning og uppgjör reikninga.
Nú eru tveir valkostir - annar er sá að eiga þennan dag á ströndinni - snæða hádegisverð á hótelinu - hinn er sá að leggja strax af stað til Milanó og eyða deginum þar, áður en haldið er út á flugvöll í veg fyrir heimflug á fluginu: FI 533 13JUN MXP/KEF 23:40 - 01:55

Innifalið: Flug og skattar til og frá Mílanó, gisting m/morgunverðarhlaðborði á Hótel Poianó**** við Garda, í fimm nætur - gisting í hálfu fæði á Hótel Lido *** + í Marina di Massa, í fjórar nætur, rúta samkvæmt ferðadagskrá, tveir glæsikvöldverðir, innlendir leiðsögumenn þar sem þess er krafist og skipulag ferðar.

Ekki innifalið: Aðrar máltíðir en að ofna greinir, vínsmökkun í Bardolino, miði í fjallakláf, miðar í ferju á Gardavatni og bátinn til Cinque Terre.


Tuesday, July 19, 2011

Söngferð til Danmerkur í júní 2011

Það var síðasta haust (2010) sem ákveðið var að Árbæjarkórinn færi í ferð til Danmerkur um Hvítasunnuna í ár og syngja þar við messu. Þessi hugmynd kom í gegnum Höllu og Tona sem þekkja fólk í Kolding en þangað var ferðinni heitið. Spurt var hverjir gætu farið og var það um helmingur kórsins sem taldi svo vera og þar á meðal ég. Miðarnir voru keyptir í nóvember og kostuðu rúmlega 30 þús. kall stykkið sem var auðvitað ekki mikið en helgaðist af því að um næturflug var að ræða.
Prógram var svo æft um veturinn því meiningin var að syngja ekki bara í Hvítasunnumessu í Kolding heldur líka tónleika í Fredericia.

Ekki þarf að orðlengja þetta frekar en ferðin hófst sem sagt með flugi til Billund kl. 0.30 þann 8. júní. Við tókum Steina og Rögnu með til Keflavíkur og skildum bílinn eftir þar. Flugið til Billund gekk ágætlega en ekkert gátum við þó sofið á leiðinnni og þónokkur bið var eftir farangri en við vorum komin heim á hótel um áttaleytið um morguninn. Það lá nú ekkert ljóst fyrir hvort við fengjum herbergi strax eða hvort við þyrftum að bíða fram yfir hádegi en sem betur fer þá voru þau tilbúin og við gátum meira að segja líka fengið morgunmat. Þetta var allt hið besta mál. Við lögðum okkur og fórum svo í smá labb með vinkonu þeirra Höllu og Tona sem sýndi okkur aðeins inn í bæinn. Tókum smá söngæfingu í spænsku tröppunum sem svo eru nefndar.










Æfing í spænsku tröppunum

Eftir það var frjáls tími. Um kvöldið borðuðum við á ágætum veitingastað sem heitir Latin og var rétt hjá hótelinu.
Á fimmtudeginum æfðum við aftur í spænsku tröppunum og svo var farið til Fredericia með lest og við sungum tónleikana kl. 19:30. Héldum æfingu um kl. 17:00 og fengum að borða kl. 18:00.
Tónleikar í Fredericia

Tónleikarnir tókust ágætlega og fengum við hressingu að þeim loknum. Makar fóru í göngutúr um nágrennið og komu hressir til baka. Höfðu fundið fína bensínstöð og gæludýrabúð í göngutúrnum. Magnhildur prestfrú hélt þó hópum frá solli og sagðist hafa verið í kallapössun.
Þegar heim var komið aftur á hótelið var sest inn á bar og spjallað og drukkið þar til kominn var rúmlega hæfilegur svefntími.

Föstudagurinn var að mestu leyti frjáls þar til kom að því að við færum í kvöldmatarboð til vinahjónanna, Ingu og Sigurgeirs. Þar var þessi líka feikna grillveisla með tilheyrandi drykkjum og eftirmat að ógleymdum forrétti. Allt var þetta með miklum myndarbrag. Boðið var upp á lambakjót og nautakjöt sem grillað var á gríðarlegu útigrilli. Búið var að koma upp stærðar tjaldi og setja þar borð þar sem matast var. Þetta var allt hið besta.
Á laugardeginum var engin dagskrá nema hvað ég og presthjónin fórum til Árósa að horfa á leik Íslendinga og Hvít-Rússa í Evrópukeppni landsliða undir 21 árs aldri. Við fórum með lestinni og þurftum að standa alla leiðina þar sem lestin var sneisafull. Við hittum svo Íslendinga á torgi niðri í bæ og svo var gengið fylktu liði upp á völl.
Því miður tapaðist leikurinn 2-0 og voru það mikil vonbrigði. Heimferðin tók langan tíma þar sem lestin gekk ekki nema til Vejle og þar biðum við í klukkutíma eftir strætó og þegar við komum til Frederica þurftum við að bíða í klukkutíma eftir lestinni til Kolding. Vorum ekki komin í áfangastað fyrr en um eittleytið. Vorum orðin ansi þreytt og ég farinn að finna vel til í bakinu.

Á sunnudagsmorgun þurftum við að rífa okkur upp í morgunmat og svo að taka strætó til kirkjunnar þar sem sungin skyldi hátíðarmessa. Það gekk allt saman ágætlega nema hvað söngurinn hefði kannski mátt vera betri að sumra mati. Eftir messuna var boðið upp á hressingu í safnaðarheimilinu.
Eftir að hafa skipt um föt fórum við í góðan göngutúr með Steina og Rögnu um bæinn. Allar verslanir voru að sjálfsögðu lokaðar en barir voru opnir og kom það sér vel.


Allt lokað!

Um kvöldið var svo lokasamkvæmið eða síðasta kvöldmáltíðin og var hún á veitingastaðnum Latin sem áður hefur komið við sögu. Þar fengum við fínar veitingar og var dvalið þar langt fram eftir kvöldi.


Og það er fjör!

Um nóttina þurftum við að rífa okkur upp og mæta út á flugvöll því við áttum að fara í loftið kl. 08:15. Við tókum leigubíl á völlinn því strætó var ekki farinn að ganga. Allt gekk eins og í sögu í gegnum flugstöðina og vélin lagði af stað á réttum tíma og flaug sem leið lá í átt til Íslands í 40 mín. Þá kom flugstjórinn í hátalarann og tilkynnti að það væri komin upp bilun og vélinni yrði snúið aftur til Billund. Eitthvað var að rafkerfinu tjáði hann okkur. Við lentum svo í Billund eftir aðrar 40 mín og þá var orðið ískalt í vélarskriflinu sem var leiguvél frá Finland Air. Öllum farþegum var smalað inn í flugstöð sagt að vera þar! Svo leið og beið þar til flugfreyjan kom í hátalarann og tilkynnti að áhöfnin færi á hótel til að hvíldartíminn væri löglegur. Og enn var beðið. Þegar komið var vel fram yfir hádegi var okkur tilkynnt að við ættum að fara á hótel og vera þar þangað til búið væri að gera við flugvélina eða gera aðrar ráðstafanir. Við fórum svo í strætó til Lególands en þar eru smáhýsi til útleigu. Við fórum í hús með Steina og Rögnu. Okkar beið kaffi og með því og um kvöldið var fínn kvöldverður að sjálfsögðu í boði Flugleiða.
Og áfram var beðið. Það voru boðaðar fréttir á klukkutímafresti eða svo en aldrei var neitt að frétta. Það verður að segjast eins og er að starfsfólkið var afskaplega almennilegt og þjónustulipurt þannig að ekki var undan neinu að kvarta að því leyti. Og áfram var beðið. 

Mynd frá biðinni er hér til vinstri

Um klukkan hálf tólf eða tólf fórum við og lögðum okkur því allir voru orðnir dauðlúnir. Svo var það um hálf tvö um nóttina að það er bankað og okkur sagt að mæta í rútu eftir korter. Við í það og svo var keyrt á flugvöllinn og það tók skamman tíma að komast í gegn þar. Innritunin frá morgninum var látin gilda. Til að sækja okkur var komin önnur vél og stærri og átti hún að koma við í Kaupmannahöfn og hirða þar upp strandaglópa sem höfðu beðið á flugstöðinni allan daginn. Ég vorkenndi því fólki.
Vélin var alveg kjaftfull frá Kaupmannahöfn en samt gátum við SMG haft 3 sæti þannig að ég gat verið á ská í tveimur sætum því það var svo helv.... þröngt og ekki hægt að halla sætunum aftur á bak.

Allt saman hafðist þetta nú og heim vorum við komin um áttaleytið um morguninn. Ég hafði átt pantaðan tíma hjá Jósep í Stykkishólmi en hafði beðið Grím að afpanta fyrir mig sem betur fer. Hefði ekki haft heilsu í að fara vestur. Við bara lögðum okkur og tókum hvíld
Segir ekki meira af þessari ferð.

Tuesday, April 5, 2011

Boston í mars 2011

Vildarpunktar urðu til þess að við ákváðum að skreppa til Boston í mars. Það voru til ansi margir punktar og þegar kom tilboð um einn fyrir tvo stukkum við til og keyptum farmiðann. Það voru heilmiklar bollaleggingar um á hvaða hóteli við ættum að vera og endirinn varð sá að við pöntuðum á Hilton í Financial District- hverfinu. Það voru svo að sjálfsögðu töluverðar pælingar um hvernig ætti að verja þessum dögum en fjórir dagar á ferðalagi eru ekki lengi að líða. Það vissum við af fyrri reynslu.

Hvað um það, við drifum okkur á flugvöllinn seinnipart miðvikudagsins 23. mars, skildum bílinn eftir og flugum sem leið lá til Boston. Það gekk allt eftir áætlun og eftir smá töf á flugvellinum tókum við leigubíl á hótelið. Það er ekki svo ýkja langt af flugvellinum í bæinn, tók ca. 15-20 mín. og kostaði 12-15 dollara.
Allt var klárt á hótelinu og við fengum stórt og mjög fínt herbergi. Það var orðið kvöldsett þegar við vorum búin að koma okkur fyrir þannig að við fengum okkur smá snarl og löbbuðum aðeins út svona rétt til að ná áttum. Að því loknu var það kojan.

Morguninn eftir vöknuðum við æði snemma eins og eðlilegt er út af tímamun. Eftir morgunverð tókum við leigubíl í verslunina Target en það er markaður með allskonar vörur á góðu verði. Versluðum þar talsvert, fengum okkur svo að borða og tókum leigubíl heim. Eftir smá hvíld löbbuðum við í H&M og síðan þar um kring. Þegar því var lokið löbbuðum við á Quincy Market og skoðuðum okkur þar aðeins um. Það var ansi kalt og búið að vera allan daginn svo ekki var ýkja margt fólk á ferli. Fengum okkur að borða á frekar fínum stað og löbbuðum svo heim.

Kuldaleg
Eins og áður greindi þá var ansi kalt í Boston þessa dagana og töluverður vindur. Við svoleiðis aðstæður koma búðir sér einkar vel. Það kom okkur á óvart hvað lítið var um kaffíhús og jafnvel matsölustaði á þessu svæði. Við komumst svo að raun um að þeir eru fleiri í öðrum hverfum borgarinnar. Það er eins og vindur þarna vestra sé miklu naprari heldur en íslenska norðanáttin. Trúlega er það rakinn í loftinu sem veldur því.
Nú, nú, áfram með smjörið. Föstudagurinn fór í að skoða þá miklu verslunargötu Newbury Street og Boylston Street. Löbbuðum þessar götur í rólegheitum og kíktum aðeins í búðir.



Um kvöldið borðuðum við á fínum stað sem heitir Umbria. Þeir sérhæfa sig í að matbúa Angus - naut og gera það bara ágætlega.

Laugardaginn tókum við í að fara í útsýnis- og fræðslutúr um borgina. Fórum í rútu og bílstjórinn var fjallhress ung stúlka sem talaði stanslaust, söng og lét öllum látum. Það var fróðlegt og skemmtilegt.

Á brúnni á leið til Cambridge

Seinnipartinn vorum við svo á röltinu að sjá okkur um. Það er margt að sjá þara í Boston og mikil saga sem væri gaman að kynnast nánar en betra væri að vera þarna í hlýju og góðu veðri en ekki svona kuldasteytingi eins og var á okkur. Um kvöldið borðuðum við á Quincy Market í þvílíkum hávaða frá öðrum gestum að það var varla vært. Segir ekki gjör af því.

Á sunnudeginum fórum við að skoða safnið og kirkjuna sem Ann Baker stofnaði en hún var mikill frömuður í hugrækt og raunar í spíritisma líka. Hluti af þessu er Maparium sem er heimskort eins og kúla í laginu og maður stendur inni í. Það er ansi magnað.

Um kvöldið var svo heimferðin og gekk hún að óskum.

Niðurstaðan er sú að Boston er vel þess virði að heimsækja en betra örugglega að gera það að sumri til.

Wednesday, February 9, 2011

Gúrkutíð

Það má með sanni segja að það sé gúrkutíð hjá Ferðafélaginu B19. Engar ferðir hafa verið farnar utan að við skruppum snögga ferð til Stykkishólms í gær, 8.febrúar 2011. Fórum af stað rúmlega 10 um morguninn og vorum 2 tíma á leiðinni. Eftir að hafa lokið erindum brunuðum við í bæinn aftur, enda var spáð hávaðaroki og leiðindum sem líka kom á daginn. Það var ansi hviðótt undir Hafnarfjallinu og á Kjalarnesinu en í hviðunum fór vindhraðinn í 31 ms. Allt gekk þó vel.
Fleira er ekki af þessu að segja.

Hér fer á eftir skýring á orðinu gúrkutíð:
Orðið gúrkutíð í merkingunni 'fréttasnauður tími' er fengið að láni úr dönsku, agurketid. Það er aftur á móti fengið úr þýsku. Þar er talað um Sauregurkenzeit, þ.e. tíma (Zeit) sýrðra (saure) gúrkna (Gurken).

Sýrðar gúrkur eru sérstakar litlar gúrkur sem lagðar eru í edikslög og hafðar sem meðlæti með kjöti og fleiru. Samkvæmt þýskri orðabók frá Duden er upprunans að leita í máli kaupmanna í Berlín. Átt var við þann tíma sumars þegar gúrkurnar þroskuðust og voru lagðar í súr en á sama tíma stóðu frí sem hæst og viðskipti voru í lágmarki.

Á þessum tíma komst einnig fátt fréttnæmt að og fjölmiðlar höfðu úr litlu að moða. Merkingin gúrkutíð hefur síðan víkkað og nær nú yfir þann tíma þegar frí standa almennt sem hæst, meðal annars í þinginu, og fréttamenn eiga oft erfitt með að finna fréttaefni.

Af Vísindavefnum.