Friday, August 27, 2010

Hrafntinnusker 1. ágúst

Það hafði lengi verið á stefnuskránni að skreppa í Hrafntinnusker en ekki verið tækifæri til. Steina hafði að vísu komið þar fyrir margt löngu á Laugavegsgöngu en ég aldrei. Ekkert þýðir að reyna að fara þangað nema veðurútlit sé gott þar sem þetta er illviðrarassgat.


„Hrafntinnusker er 1128 m hátt fjall við Austur-Reykjadali, austan Heklu. Það er hægt að aka langleiðina þangað frá Sátubarni á Dómadalsleið eða Laufafelli á Miðvegi. Útsýni er mikið og gott af Skerinu, sem er á gönguleiðinni milli Þórsmerkur og Landmannalauga, „Laugaveginum”. Þar er ágætis áningarstaður í skála Ferðafélagsins, sem var byggður 1977. Hann rúmar 20 manns. Umhverfis skerið, einkum vestan við það, er fjöldinn allur af hverum, enda er Torfajökulssvæðið meðal stærstu háhitasvæða landsins.Þarna eru gufuhverir, litskrúðugir leirhverir, sígjósandi vatnshverir og aðrir rólegri. Sumir eru undir jökli og mynda íshella. Litadýrð þessa ríólítsvæðis er ólýsanleg.

Það er áhættusamt að fara inn í slíka hella vegna þess, hve óstöðugir þeir eru. Ferðamaður beið bana í einum þeirra í Hrafntinnuskeri morguninn 16. ágúst 2006.“

Heimild www.nat.is

Við ákváðum að drífa okkur og höfðum samband við Villa og Immu og inntum þau eftir hvort þau vildu koma með. Þau voru til í það en þau voru einmitt stödd í útlegu í Biskupstungum. Villi gáði til veðurs árla morguns og sá að ekki var ský á himni og sól um alla jörð. Við drifum okkur af stað um hálf ellefu og hittum þau í Árnesi. Ókum síðan sem leið lá upp úr Þjórsárdal og yfir Þjórsá á brúnni við stífluna fyrir neðan Hrauneyjar. Man ekki alveg hvað þetta heitir.


Á leið inn í Hrafntinnusker

Veðrið gat ekki verið betra, sól og 15 til 20 stiga hiti. Vegir voru ágætir lengst af, að vísu varð færðin leiðinlegri eftir að komið var inn á afleggjarann inn í Hrafntinnusker. Okkur fannst merkilegt að sjá að á skiltinu stóð Hrafntinnusker 10 en leiðin þangað inneftir er nálægt 20 km. Við vissum ekki við hvaða mælieiningu var miðað. Við ókum þetta sem leið lá og áðum aðeins á 1000 metra hólnum á Pokahrygg. Þar liggur vegurinn í 977 m hæð en á hóllinn er 1000 m yfir sjávarmáli. Útsýni er stórbrotið af þessum stað og er öllum sem leið eiga þarna um ráðlagt að ganga upp á hólinn. Að vísu liggur bílaslóð þarna upp en ástæðulaust er að keyra, fólk er ekkert ofgott til að rölta þetta og hefur bara gott af því eftir að hafa setið á rassg... í lengri tíma við akstur og skastur. Við áðum þarna í góða stund og dáðumst að útsýninu í veðurblíðunni og að sjálfsögðu voru myndavélar óspart notaðar.

Hér getur að líta myndir sem teknar voru á hólnum. Það er auðvitað galli að vera ekki með örnefni á hreinu og er það verðugt verkefni í framtíðinni að skrá niður myndefnið jafnóðum.





Eftir þennan góða stans á Pokahrygg var haldið áfram sem leið lá inn í Hrafntinnuskerið. Ekið er niður af Pokahrygg og í gegnum Reykjadali en þar eru heitar uppsprettur og heitir lækir. Við reyndar prófuðum nú ekki að vaða í lækjunum en áðum þarna í smástund og höfðum drekkutíma. Öll vorum við orðin svöng og þyrst og fegin veitingum.

Drekkutíminn, Villi og Imma til hægri

Þegar upp í Skerið kom var þokuslæðingur og skítakuldi að því er okkur fannst. Fórum í úlpur og settum á okkur húfur og aðrar verjur. Við gengum niður að íshellunum sem reyndar eru engir nú um stundir. Ég talaði þarna við mann sem var á ferðinni og sagðist sá hafa komið þarna fyrir 4 árum og þá var jökullinn mikið framar og stór íshellir.
 
 
 
Úti á eyrunum framan við jökulinn var kross sem við álitum að væri til minningar um ferðamanninn sem fórst þarna árið 2006.
 
 
Það var skítakuldi þarna uppi
 
Við stoppuðum ekki ýkja lengi þarna, eins og ég hef margsagt var ansi kuldalegt á þessum stað. Við sáum ekki Höskuldarskála, hann er víst aðeins frá íshellunum og við nenntum ekki að fara þangað.


Þegar hér var komið sögu héldum við til baka sömu leið og þegar komið var á afleggjarann inn í Landmannalaugar skildust leiðir. Villi og Imma óku til baka til síns heima til að undirbúa grill og annað slíkt en þau voru með dóttur sína og barnabörn með sér í útilegunni. Við Steinunn tókum hins vegar afleggjarann inn í Landmannahelli og ókum í kringum Sátu. Stoppuðum nánast ekkert við hellinn nema til að fara á wc. Komum þarna fyrir nokkrum árum. Eftir kaffistopp ákváðum við að ganga að Rauðufossum en það er góður spotti frá vaðinu yfir Helliskvísl. Þetta var fínn göngutúr og voru teknar margar myndir af fossinum sem flokkast sem slæðufoss.

Rauðufossar


Okkur þótti afar ljótt að sjá bílaslóðir þarna uppeftir, að vísu gamlar slóðir en dæmin sanna að svona slóðir eru sýnilegar í áraraðir.
 
 
Steinunn í gömlum hjólförum
 
Eftir þennan ágæta göngutúr í kvöldblíðunni héldum við heim á leið og ókum sem leið lá niður Landveg og síðan til Selfoss það sem við fengum okkur eina með öllu sem var vel þegið enda orðin svöng af ferðalaginu.


Heim var svo komið um tíuleytið.

Wednesday, August 25, 2010

Jeppahópurinn

Nú förum við að verða spennt að vita hvert þau Þorgrímur og Svava ætla með okkur í haustferðina. Það hvílir alltaf heilmikil dulúð yfir ferðaáætlunum hópsins sem gerir þetta alltaf meira spennandi.

Jeppahópnum og ferðum hans verða gerð nánari skil síðar.

Tuesday, August 24, 2010

Að byrja

Það er með þetta eins og allt annað, það tekur tíma að byrja, átta sig á kerfinu og koma þessu upp. En þarna sjáið þið mynd af Alpaþyrni sem er hér í garðinum í B19.

Góðan daginn

Rétt að byrja hérna, verið þolinmóð! Er að hugsa málið!:D