Monday, October 21, 2013

Krakow í október 2013

Það var einhverntíma síðasta vetur eða sem ákveðið var að taka þátt í kóramóti í Krakow í Póllandi. þar áttu að taka þátt einir 11 kórar og syngja hver sitt prógram í tónlistarhöll eða húsi sem kannski líkist Salnum í Kópavogi.

Söngstjórinn, hún Kristina, valdi prógram til að flytja og var það eingöngu íslensk tónlist. Mér skildist að það hefði verið óskað eftir tónlist frá heimalöndum kóranna. Það kom nú í ljós að misbrestur var á því en það gerði ekkert til að mínu viti.

Tónlistin var æfð með öllum kórnum á vormánuðum og síðan tekið til við æfingar aftur í september. Kórinn hélt síðan tónleika þann 26. september í Árbæjarkirkju. Þeir voru með öllum hópnum, bæði þeim sem ætluðu að fara og líka hinum. Þessir tónleikar tókust ekkert sérstaklega vel að mínu mati og kannski fleiri. Eins og þekkt er hefði væntanlega þurft fleiri æfingar.

Ein æfing var svo með hópnum sem ætlaði út og tókst hún vægast sagt hörmulega. Það segir sig auðvitað sjálft að þegar burðarásum úr röddum er kippt í burtu að það þarf að æfa þá sem eftir standa mikið betur.

En með þetta í farangrinum lögðum við upp frá Árbæjarkirkju í langferðabifreið um kl 9 fimmtudaginn 3. okt. Bjarni hafði útvegað þessa bifreið sem flutti okkur og var fargjaldið 1500 á mann hvora leið eða 6000 kall á parið. Það var vel sloppið enda fór hver einasti kjaftur með rútunni.

Allt gekk eins og í sögu í Keflavík og flugvélin var á tilsettum tíma og flaug þennan spöl á 4 tímum. Auðveldlega tókst að komast í gegnum flughöfnina í Katovice og síðan tók við 1, 5 tíma akstur á hótel.
Hótelið heitir Novotel City West og er ca 4 km frá miðbænum. Það reyndist nú bara snyrtilegt hótel með rúmgóðum og ágætum herbergjum. Hópurinn var á annarri hæð þannig að það gat nú ekki verið þægilegra. Á fyrstu hæðinni var matsalur og bar. Eftir að búið var að koma sér fyrir fór fólkið að fá sér að borða, sumir fóru út og fengu eitthvað lítið og ómerkilegt en aðrir og þar á meðal við fengum okkur að borða á hótelinu og var það bara ljómandi gott.

Á föstudagsmorguninn vorum við á fótum kl 7;30 og fórum í morgunmat sem var þokkalega góður en þó vantaði beikon sem mér þótti frekar fúlt. Að loknum morgunverði tók hópur af fólki sig saman og fór í strætó í bæinn. Það gekk nú ekki andskotalaust en hafðist þó fyrir rest. Erfiðlega gekk að borga og sluppu sumir billega. Enginn var þó tekinn í arrest. Við löbbuðum um bæinn í ágætu veðri, það var lygnt en hafði fryst um nóttina. Fengum okkur hádegisverð á viðeigandi tíma en tókum svo leigubíla heim á hótel. Lögðum ekki í strætó meira.

Korter fyrir 15 voru svo teknir bílar á konsertstaðinn en þangað voru um 4 km að sögn. Kórinn æfði svo í þennan hálftíma sem úthlutað var og því miður var þetta nú ekki upp á það besta. Aðeins var svo æft þegar út úr húsinu var komið. Að þessu loknu var eitthvað rölt og síðan fékk fólkið sér að borða. Sumir borðuðu í tónlistarhöllinni en við ásamt fleirum löbbuðum yfir ána og fengum okkur að borða þar. Að þessu loknu fór fólkið í kórskrúðann og kom sér fyrir í salnum. Við vorum þriðju í röðinni af fjórum kórum. Okkur tókst ekki vel upp að mínu mati og voru hinir kórarnir mun betri. Ætla ekki að fjalla meira um það.

Þegar öllu var svo lokið tók nú við eitt ævintýrið enn og það var að komast heima á hótel. Það hafði engum hugkvæmst að panta rútu til að flytja fólkið milli staða þannig það það þurfti að bíða heillengi eftir að allir gætu fengið leigubíl. Á endanum tókst þetta þó.
Við vorum nú orðin lúin þegar heim kom á hótelið en stoppuðum þó á barnum og fengum okkur hressingu.

Næsti dagur var laugardagur og þá voru allir snemma á fótum líka því við þurftum að vera komin í kirkju Péturs og Páls en þar áttu allir kórarnir að syngja kl 10:30. Við vorum númer sjö í röðinni af 11 kórum og fengum enga upphitun eða neitt. Það skilaði sér líka þannig að við sungum Heyr himnasmiður alveg hörmulega. Seinna lagið var þó skárra. Ég held að allir hafi verið þeirri stund fegnastir þegar þetta var búið, við komin heim á hótel og úr göllunum. Ekki meiri söngur í þessari ferð.

SMG var ekki í kirkjunni heldur fór hún í stórt moll sem var og er þarna í grenndinni. Við Bjarni tókum saman leigubíl á hótelið og svo aftur í mollið en þar hittum við konur okkar. Við SMG vorum dágóða stund þarna og eitthvað var nú verslað en verðlag virðist almennt vera hagstæðara í Póllandi en hér. Þegar heim kom á hótelið hvíldum við okkur aðeins og fórum svo í matsalinn niðri og þar voru Ragna og Steini að ljúka við að borða. Við sátum hjá þeim og þau tóku okkur bara hlýlega. Buðu okkur svo upp á herbergi í samástund á eftir.

Síðan rann upp sunnudagurinn bjartur og fagur. Við vorum á fótum kl 8 og fórum í morgunmat en kl 10 kom rúta og sótti okkur til að fara í saltnámurnar. Námur þessar eru einhver mest sótti túristastaður í Krakow en þangað koma á hverju ári um ein milljón ferðamanna. (Hér á að koma linkur inn á sögu námunnar). Ferðin í gegnum námurnar tók um 2 klukkustundir og var þetta bara fróðlegt og gaman. Rútan beið eftir okkur og keyrði okkur á markaðstorgið. Þar fengum við okkur að borða og síðan var fyrirhugaður göngutúr með leiðsögn um borgina. Við vorum þarna 8 saman sem tókum okkur út úr og löbbuðum í Gyðingahverfið og skoðuðum það. Við vorum búin að skoða hinn hluta borgarinnar á labbinu fram til þessa, auk þess sem við vissum að við myndum ekki heyra neitt í leiðsögukonunni.
Þetta var fínn göngutúr og við tókum svo leigubíl heim á hótel.

Eftir að heim kom var stutt stopp og síðan var sjænað upp og haldið á fínan veitingastað sem búið var að panta á. Nú var búið að panta leigubíla fyrir alla og var það mikill munur.  Maturinn á þessum stað var bara fínn og voru bornir fram fimm réttir. Steinunn lenti reyndar í hremmingum út af hnetuofnæminu og var nú frekar klaufalega staðið að því að lagfæra það. Allt um það þetta kláraðist allt og allir komust heim á hótel og einhverjir ónefndir bættu aðeins á sig á barnum þó kannski nóg hafi verið komið.

Mánudagurinn fór síðan í að taka saman, gera upp og fljúga heim. Það gekk allt að óskum og þarf ekki að fjölyrða um það hér.

Lýkur þar með pistli þessum

Myndasyrpa frá Krakow

Myndirnar voru teknar á Samsung SIII