Svo rann brottarardagurinn upp en það var 1. maí baráttudagur verkalýðsins. Guðmundur og Stína komu og fóru svo samferða okkur á völlinn. Flogið var kl. 09:30 og vorum við mætt um tveimur tímum fyrir brottför eins og fyrir var lagt. Vel gekk í gegnum vopnaleit og slíkt enda þetta fólk þekkt að öðru en hryðjuverkum. Síðan var þetta hefðbundna í Fríhöfninni og eitthvað keypt, allavega smávegis af vínföngum svona til öryggis. Maður veit nefnilega aldrei!
Flugið gett alveg ágætlega enda færð góð og skyggni ágætt, smá ókyrrð var yfir Frakklandi en ekkert alvarlegt.
Einnig gekk ágætlega í gegnum flugstöðina í Barcelona og þar beið síðan rúta sem flutti fólkið á tilheyrandi hótel. Hótelið okkar reyndist þrifalegt og ágætt í alla staði. Það kom í ljós við innritun að Guðmundur og Stína voru ekkert bókuð inn á hótelið þrátt fyrir að vera með staðfestingu um það. Þetta leysist þó farsællega og fengju þau herbergi nr. 423. Við vorum aftur á móti á 326.
Eftir að hafa komið okkur fyrir, tekið smá hvíld og áttað okkur á aðstæðum fengum við okkur göngutúr niður á Catalunya torgið en þar á Ramblan upphaf sitt. Hungur var farið að sverfa að og eftir að hafa skoðað nokkra matseðla sem voru úti við fórum við inn á Tapas stað og borðuðum. Það kom mér þægilega á óvart hvað mér fannst þetta gott enda orðinn glorsoltinn. Ekki skemmti heldur ölið. Það hittist nú þannig á að Barcelona FC var að spila seinni leikinn við Bayern. Leikurinn var sýndur á hæðinni fyrir neðan þar sem við borðuðum. Það er skemmst frá að segja að ekki var nú stemningin mikil hjá spönskum enda töpuðu þeir 0-3 og samanlagt 7-0 sem er ótrúlegt. Ég hafði nú svo sem látið mér detta í hug að fara á leikinn, en tímdi því svo ekki þegar til kom. Sé ekkert eftir því.
Eftir matinn var labbað heim og í háttinn enda smá flugþreyta í liðinu.
Sagrada
Um kvöldið borðuðum við á veitingastað sem heitir Maur.........eitthvað og fengum ágætan mat. Staðurinn var í göngufæri frá hótelinu. Að borðhaldi loknu tókum við leigubíl að gosbrunnasýningunni þar sem við stoppuðum góða stund og nutum tónlistar og lita. Þar gengu um drengir og seldu bjór á misjöfnu verði en góður var hann. Þessi sýning er afar falleg og músikin sem flutt var með átti einstaklega vel við.
Tókum svo leigubíl heim Leigubílar eru ekki ýkja dýrir þarna og þegar gjaldið deilist á 4 persónur er það ekki hátt pr. mann.
Einhverntíma að deginum var þetta ort af engu tilefni:
Situr einn og hengir haus,
hann er eins og bjáni.
Eflaust kemur auralaus,
Eiríkur frá Spáni.
Guðmundur sendi Ólafi vini okkar þessa vísu og nokkru síðar kom svar sem nánar verður gerð grein fyrir síðar.
Föstudagurinn hófst eins og flestir aðrir dagar... að morgni. Við vorum fyrr á fótum en daginn áður því nú skyldi haldið í skoðunarferð til Montserrat sem er fjallaþorp í ca. klukkutíma ferð frá Barcelona. Við lögðum af stað á tilsettum tíma, sami fararstjóri var eins og í gær og flutti hún fróðlegan pistil á leiðinni. Montserrat er byggt í kringum klaustur sem þar er starfandi og hefur verið um aldir. Þar er líka starfræktur drengjakór. Þegar upp var komið löbbuðum við um og skoðuðum það sem fyrir augu bar.
Hægt er að taka kláfferju upp á fjallið eða þá litla lest sem fer á teinum. Þetta eru tveir vagnar sem mætast á tilteknum stað í brautinni. Spánskir kalla þetta rennilásinn og er það nokkurt réttnefni. Þetta kom okkur SMG ekkert spánskt fyrir sjónir þar sem við höfðum séð og farið í samskonar farartæki í Ástralíu. Við tókum þá ákvörðum að láta fram hjá okkur fara að fara upp á fjallið en ekki var örgrannt um að við sæjum eftir því þegar leið á daginn.
Þarna er eitthvað merkilegt að sjá
Hægt er að taka kláfferju upp á fjallið eða þá litla lest sem fer á teinum. Þetta eru tveir vagnar sem mætast á tilteknum stað í brautinni. Spánskir kalla þetta rennilásinn og er það nokkurt réttnefni. Þetta kom okkur SMG ekkert spánskt fyrir sjónir þar sem við höfðum séð og farið í samskonar farartæki í Ástralíu. Við tókum þá ákvörðum að láta fram hjá okkur fara að fara upp á fjallið en ekki var örgrannt um að við sæjum eftir því þegar leið á daginn.
Við fórum í kirkjuna og hlýddum á drengjakórinn syngja tvö lög um eittleytið og síðan var farið á bændamarkaðinn. Stína og Steina keyptu bæði osta og vín og verður gaman að smakka hvorutveggja.
Rútan skilaði okkur svo aftur á Catalunya torgið og við röltum eitthvað um og fengum okkur hressingu við hæfi. Það verður að segjast að bjórinn þeirra Börsunga, Esterella, einstaklega góður og enginn vandi að drekka mikið af honum.
Eftir þetta ferðalag tókum við leigubíl niður að hafnarsvæðinu og röltum þar um góða stund og fengum okkur belgiska vöfflu og crepe pönnuköku. Þetta smakkaðist harla vel. Þarna við höfnina er gríðarstór stytta af Kólumbusi þeim mikla landkönnuði sem ranglega er sagður hafa fundið Ameríku. Það var að sjálfsögðu Íslendingurinn Leifur heppni sem það gerði. En spánskir vita víst ekki betur.
Eftir að hafa gengið um hafnarsvæðið löbbuðum við í rólegheitlum í gegnum stóran garð og upp í Born hverfið. Þar eru afar þröngar götur og mikið listamannalíf. Komum meðal annars við í búð sem selur eftirprentanir af Picasso myndum. Skoðuðum ekki sjálft safnið.
Þetta Born hverfi er afar skemmtilegt og ætti enginn að láta það fram hjá sér fara.
Víkjum það að kveðskap. Þess var getið áður að eftirfarandi vísa hafði borist frá Ólafi vini vorum:
Með lítið vit og lúna hönd
latur þurfalingur.
Æðir nú viltur í önnur lönd
Eiríkur vitleysingur.
Þetta var honum líkt. En ekki var hægt að láta þessu ósvarað og því varð þessi til:
Barcelonaborg er flott,
bjórinn fær að streyma.
Ósköp þykir okkur gott
að Óli situr heima.
Og með vísan til þröngra stræta í Born hverfinu:
Um strætin bæði þétt og þröng
þeysa menn á hjóli.
Ef birtist hér með sálmasöng
sæti fastur...Óli.
Ekki bárust fleiri ljóð frá Ólafi.
Um kvöldið leituðum við uppi stað sem þau Dabba og Sibbi höfðu bent á en hann heitir 4cats. (Dabba er starfsmaður Heimsferða og fyrrverandi kórfélagi og Sibbi er matreiðslumaður í Seðlabanka Íslands.) Eftir nokkra leit fundum við staðinn og fengum okkur saltfisk. Þetta var fínn matur. Undir fiskinum var mauksoðinn laukur og eitthvað fleira og oná honum af Allioli. Þetta smakkaðist vel.
Að þessu loknu var haldið í háttinn enda góður dagur að kveldi kominn.
Laugardagur rann upp bjartur og fagur og var hann að öllu leyti frjáls og ómótaður. Það lá auðvitað fyrir að hugur var í helmingi ferðalanga að líta aðeins í búðir og verður lesendum eftirlátið að geta sér til um hvor helmingurinn það var.
Eftir ágætan morgunverð var farið í hópgöngu niður á Catalunya torgið og þar skiptist flokkurinn í tvær fylkingar og voru tvö í hvorri. Síðan var farið búð úr búð og skoðað allt hvað af tók. Pokum fjölgaði smátt og smátt en mest þó eftir H&M enda er það uppáhaldsverslun margra, sérstaklega kvenna.
Guðmundur kvað:
Um Römbluna þau ramba prúð
með radarinn í lagi.
Steinunn fer þar búð úr búð
með bónda í eftirdragi.
Þegar komið var vel fram yfir hádegi var aftur skipt liði og nú fórum konur saman en karlar tóku til við að skoða mannlíf og gera bjórtest. Allt fór þetta vel fram. Guðmundur fékk að vísu kvíðakast þegar hann fattaði að hann var Stínulaus, en sem betur fer bráði fljótt af honum.
Kvíðakastið
Við félagarnir settumst eitt sinn sem oftar á útibar og fengum okkur ölkollu í hitanum og virkaði ölið svo vel að við urðum óskaplega góðir af því. Varð okkur þá hugsað heim til íslenskrar sumarblíðu. Þá kvað Guðmundur stöku.
Það er öruggt þótt ég deyi
þegar allt er liðið hjá,
eingöngu við ilm af heyi
aftur vaknar lífsins þrá.
Ég varpaði þá fram eftirfarandi:
Ef sofna ég á sumardegi,
sunnan undir hlöðuvegg.
Upp ég hrekk við ilm af heyi,
eða glaðvært merarhnegg.
Um kvöldið var svo haldin árshátíð Ferðafélagsins AB-1019.
Eftir smá hvíld og síðan afskverum var farið niður að höfn með leigubíl og sest á stað sem heitir Plaza Real en hann var einnig eftir ábendingu frá Döbbu og Sibba. Þarna áttum við indæla kvöldstund við góðan mat og drykk. Þetta kvöld var mígandi rigning og því gengið undir regnhlífum, það sem gengið var.
Var nú komið að lokadegi þessarar ferðar, sunnudegi. Eftir morgunverð sem var nú í seinna lagi var pakkað niður og allt gert klárt til heimferðar. Töskum komið í geymslu á hóteli og síðan gengið í bæinn. Veðrið var glampandi fínt og löbbuðum við að dómkirkjunni og horfðum á Sardas-dansinn sem ku stiginn þar á hverjum sunnudegi. Þetta er hægur og rólegur dans og virtust dansarar flestir vera vel við aldur. Við skoðuðum kirkjuna og síðan var tekið til matar síns á veitingastað.
Fer nú að fækka viðburðum en rúta sótti okkur á hótelið um 14:20 og þá var haldið beint til flugvallar. Það tók rúman klukkutíma að bíða í röð eftir innritun
og síðan var varla tími til annars en fá sem smávegis í gogginn og svo var flogið heim.
Í innritunarröðinni á heimleið
og síðan var varla tími til annars en fá sem smávegis í gogginn og svo var flogið heim.
Allt þetta gekk eins og í sögu og áttum við góða heimkomu. Um þessa ferð má annars segja það að hún tókst vel í alla staði, borgin er falleg, veðrið var gott og samferðarfólkið hið ljúfasta og alveg vandræðalaust. Slíkt er ekki sjálfgefið og ber að þakka.
Skrifari þessa pistils þakkar þeim sem lásu.