Við Steina ákváðum að fara fljúgandi eftir vinnu á föstudeginum en María og Hjálmur óku norður. Þau tóku á móti okkur á flugvellinum og þá fórum við á Bautann og fengum okkur að borða. Pöntuðum bleikju, steinbít og pasta. Þetta smakkaðist allt býsna vel en talsverðan tíma tók að borga því eitthvert bras var á posum og öðru dóti. Allt fór þetta þó vel að lokum. Þriðja parið; Guðjón og Gunna komu svo með vélinni kl. 18:30 og þá var ekkert annað en fara að undirbúa tónleikaferðina. Tónleikarnir voru í hinu nýja menningarhúsi þeirra Akureyringa, Hofi og við vorum komin vel fyrir kl. 20 í þetta flotta hús. Þetta er glæsileg bygging í alla staði, hringlaga bygging með stuðlabergsklæðningu hið ytra. Húsið er hringlaga eins og hof og ber því nafn með rentu. Innan dyra er allt smekklega frágengið og glæsilegt, allavega það sem við sáum.
Tónleikarnir voru hinir skemmtilegustu þrátt fyrir að í það minnsta ég sé ekki vanur að hlusta mikið á Hjaltalín. Nokkur lög af dagskránni voru þó kunnugleg. Þetta eru allt frábærir hljómlistarmenn og hljómsveitin spilaði líka með miklum sóma.
Á laugardeginum fórum við öll í bæinn og svo var skipt liði, konurnar fóru í verslanir en við strákarnir fórum á bar í Keiluhöllinni og horfðum á Man. Udt. spila við Wolves og sem betur fer unnu mínir menn (MU) 2-1.
Um kvöldið var svo þessi fína veisla sem þau Hjálmur og María sáu um og að henni lokinni fórum við niður í bæ og hlustuðum á Siggu Beinteins og Bryndísi Ásmunds syngja Tinu Turner.
Hátíðarkvöldverður
Heim flugum við svo með fyrstu ferð á sunnudagsmorgun.